143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér greiðum við atkvæði um það hvort við eigum að nýta þau rými sem ekki eru nýtt núna víðs vegar um landið. En ég verð að segja að hv. þingmenn verða að gera sér grein fyrir því að ef þeir greiða ekki atkvæði með tillögunum verða þær ekki samþykktar. Ef allir mundu gera eins og hv. þingmenn Samfylkingarinnar í þessum atkvæðagreiðslum væri þessi aukning ekki samþykkt. (Gripið fram í.) Svo einfalt er það.

Ég vek athygli á því að í frumvarpinu … [Kliður í þingsal.] Gott að menn verða ekkert órólegir yfir þessu, ég heyri það. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir aukningu upp á 4,5 milljarða. Í meðförum þingsins er þetta komið upp í 10 milljarða. Það er aukning frá fjárlögum hv. þingmanna Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og menn skyldu ekki tala um hlutina með öðrum hætti. Þetta er gríðarleg aukning í heilbrigðisþjónustuna. Það er augljóslega ekki samstaða um það meðan menn greiða ekki atkvæði með aukningunni, ég tala nú ekki um þegar þeir tala (Forseti hringir.) gegn öllum sparnaði sem er til þess gerður að forgangsraða í þágu heilbrigðisþjónustunnar.