143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:25]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sem hefur komið fram í fjölmiðlum síðasta sólarhringinn, að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fresta sameiningum heilbrigðisstofnana og vanda sig betur við vinnuna í sambandi við það verk.

Við sitjum hjá við þessa afgreiðslu en viljum vekja athygli á ákveðnum málum. Hér er til dæmis ein stofnun, liður nr. 79, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, sem lækkar á milli ára. Hún er ein af þeim stofnunum sem hefur ekki þurft neina aðstoð, hefur ekki verið með neinn halla, hefur rekið starfsemi sína gríðarlega vel — og er þá lækkuð hér á milli ára, þ.e. menn skáru hana niður um tæpar 44 milljónir og svo er 35 skilað til baka. Við skulum átta okkur á því hvernig unnið var að þessum fjárlagatillögum.

Þarna er eitt dæmið um að menn telji sig geta slegið sér á brjóst og hælt sér af því að hafa bætt í og bætt við en það hefur ekki verið gert hjá þessari stofnun.