143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:27]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að minna á þá undarlegu forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sem birtist í viðhorfinu gagnvart vinnumarkaðsaðgerðum, starfsendurhæfingu og samskiptum við aðila vinnumarkaðarins um eðlileg samskipti á vinnumarkaði í fjárlagafrumvarpinu og í breytingartillögum. Við sjáum þessa líka stað í fjárveitingum til Vinnumálastofnunar.

Það liggja fyrir greiningar á því hversu miklu þau skiluðu, átaksverkefnin sem við réðumst í á síðasta kjörtímabili um sérstök tækifæri fyrir ungt atvinnulaust fólk. Skilaboð ríkisstjórnarinnar eru að leggja af öll þessi verkefni. Við stöndum frammi fyrir þeirri hættu að við munum búa við vaxandi vanda á næstu árum, að langtímaatvinnulausir muni eiga minni innkomu inn á vinnumarkaðinn en ella vegna þess að ríkisstjórnin vanrækir skipulega tækifærin sem ættu að vera þarna til fyrir fólk til að komast aftur (Forseti hringir.) inn á vinnumarkaðinn.