143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. 500 millj. kr. lækkun vaxtabóta á næsta ári mun þýða að til greiðslu vaxtabóta verða ekki nema rúmir 8,4 milljarðar sem hlýtur að vera nokkurt umhugsunarefni. Jafnvel þó að skuldir hafi lækkað og þar af leiðandi nýtist fjármunir betur til að greiða vaxtabætur er þetta mikil lækkun frá umfangi vaxtabóta á síðasta kjörtímabili. Frá því að þær voru hækkaðar um 2,5 milljarða á fyrri hluta árs 2009 hafa almennar vaxtabætur verið á bilinu 11–12 milljarðar og urðu með sérstöku vaxtaniðurgreiðslunni á nítjánda milljarð króna 2011.

Hér erum við komin langan veg til baka og mjög langt niður með þennan stuðning. Ég hlýt að lýsa sérstökum áhyggjum af því vegna tekjulágs fólks sem margt hvert mun ekki eiga í vændum neina úrlausn í hörpusmíði ríkisstjórnarinnar. Það hlýtur að vera áhyggjuefni að sjá þessa miklu skerðingu vaxtabóta og það undrar mann að meiri hlutinn skuli grípa til þess nú að skerða þær enn frekar en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)