143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þorði ekki annað en athuga hvort ég væri ekki örugglega með réttan lið í huga en það er liður 107 sem fjallar um sóknaráætlanir landshluta. Sóknaráætlunin var ný nálgun sem unnin var í góðri samstöðu sveitarstjórnarmanna og Sambands íslenskra sveitarfélaga og var mikil samstaða um verklagið meðal sveitarstjórnarmanna um allt land í öllum flokkum. Þess vegna er mikilvægt að finna leiðir til að halda því verklagi áfram. Sóknaráætlunin var strikuð út eða allar 400 milljónirnar voru strikaðar út í frumvarpinu en núna er gert ráð fyrir því að auka eigi við, en það er aðeins rétt tæpur fjórðungur sem lagður er til með sóknaráætluninni. Til þess að hún virki vel og geti átt framtíðina fyrir sér þyrfti það að vera enn meira.