143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:45]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram breytingartillögur við 6. gr. sem snúa að því að heimila ráðherra að leggja fjármuni annars vegar til Isavia til að taka á móti efni úr Vaðlaheiðargöngum og hins vegar til að veita heimild til að Vaðlaheiðargöng hf. geti komið efninu á sinn stað. Þetta er á deiliskipulagi Akureyrarbæjar og framkvæmdin hefur farið í gegnum umhverfismat.

Á síðasta ári ákvað ríkisstjórnin að verja 30 millj. kr. til þessa verkefnis. Þær 30 millj. kr. hafa legið fyrir og atvinnuvegaráðuneytið hefur verið reiðubúið að greiða þær út en innanríkisráðuneytið hefur lýst því yfir að þetta sé óframkvæmanlegt vegna þess að vantað hefur heimild í fjárlög auk þess sem framkvæmdin hefur ekki verið á samgönguáætlun.

Ég ætla mér að draga þessa tillögu til baka vegna þess að nú stendur til að hægt verði með einum eða öðrum hætti að fara í þessar framkvæmdir. (Forseti hringir.) Ég á eftir að fá það 100% staðfest frá innanríkisráðuneytinu en ég fagna því að svo sé (Forseti hringir.) vegna þess að allir eru sammála um að þetta muni spara ríkissjóði hundruð milljóna króna.