143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er óskað eftir heimild til að taka á leigu viðbótarhúsnæði fyrir framhaldsskóla og háskóla í tengslum við sameiningar, breytingar eða hagræðingu á starfsemi. Í skýringum sem við fengum í hv. fjárlaganefnd kom fram að hæstv. ráðherra þætti mikilvægt að geta með stuttum fyrirvara gripið til ráðstafana ef einhverjar breytingar ættu sér stað á árinu 2014. Hæstv. menntamálaráðherra hefur boðað stórar skipulagsbreytingar á framhaldsskólastigi og þá má draga þá ályktun af þessari heimildargrein að það eigi að drífa þær skipulagsbreytingar af og það þurfi að grípa til ráðstafana strax á árinu 2014, þá væntanlega haustið 2014.

Ég tel mjög varhugavert að veita svona opna heimild þar sem gera má hvað sem er við hvaða skóla sem er. Hún er ekki afmörkuð við skóla eða landsvæði og það hefur ekki farið fram umræða um fagleg rök fyrir skipulagsbreytingunni.