143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[19:58]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni góðar fyrirspurnir. Fyrra atriðið sem hann spyr út í, sem varðar hvernig gjaldið á makrílinn ætti að leggjast á, þá er það rétt skilið hjá hv. þingmanni að hugmynd okkar gengur út á að það yrði til viðbótar sérstaka veiðigjaldinu. Til hversu langs tíma eigi að leggja það á? Ég þykist skynja áhyggjur hv. þingmanns af því að þetta yrði til of skamms tíma og ég deili þeim áhyggjum með honum. Ég tel eðlilegt að það yrði útbúið með þeim hætti að það yrði til einhverra ára svo að fyrirtækin sem leigðu þessar heimildir hefðu þær til einhverra ára til þess að geta fjárfest í vinnslu og tækniþróun sem við eigum öll mikið undir að þau geri. Akkúrat þess vegna komum við ekki með ítarlega útfærslu heldur vísuðum þessu til starfshóps þar sem ættu að sitja fulltrúar greinarinnar og færustu auðlindahagfræðingar þjóðarinnar því að það er sannarlega eftir miklu að slægjast fyrir okkur að gera þetta vel. Við megum ekki fórna hagsmunum íslensks sjávarútvegs af því að búa í fyrirsjáanlegu umhverfi og við megum ekki fórna ávinningnum af kvótakerfi og framseljanlegum kvóta, sem er grundvallarforsenda fyrir vel reknum sjávarútvegi á Íslandi. (Gripið fram í.)

Hitt sem hv. þingmaður spyr út í, sem er talan upp á 2,1 milljarð, er sem sagt þriðjungur af því sem fjárlagaskrifstofan taldi að fengist meira ef farið hefði verið eftir tillögum minni hluta atvinnuveganefndar í sumar, þ.e. ef ekki hefði verið lækkað gjaldið á bolfiskinn allan heldur sett frítekjumark en fjárhæðin höfð óbreytt þá taldi fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins í sumar að það mundi skila á ársgrundvelli 6,3 milljörðum. Þetta er (Forseti hringir.) þriðjungur af því. Þá er miðað við að þetta yrði lagt á með sama hætti og minni hluti atvinnuveganefndar lagði til í sumar (Forseti hringir.) frá og með 1. september út árið.