143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[20:00]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svörin þó að ég sé nú ekki miklu nær. Tíminn, 1 ár, 5 ár, 20 ár, ekkert svar, bara nefnd. Það eru þá yfir 6 milljarðar sem eiga að fara á bolfisksskipin, sem eru lítil og meðalstór, aðallega meðalstór því að ef ég man rétt þá hljóðaði þessi tillaga upp á afslátt á minni skipin. Ég man það ekki nákvæmlega hvort það var afsláttur upp í 200 eða 300 tonn. Þessir 6 milljarðar eiga að leggjast á vertíðarskipin sem veiða 500 og upp í 1.500 tonn. Á þau eiga sem sagt að leggjast 6 milljarðar í viðbót.

Það var nánast búið að eyða vertíðarflotanum, hinum hefðbundna vertíðarflota. Nú eru það stórútgerðirnar, uppsjávarfyrirtækin sem hafa fengið að hagræða og eru orðin örfá og þola sannarlega gjaldið. Hv. þingmaður vitnaði í nýjar hagtölur og þær sýna og sanna að hagnaðurinn er langmestur í uppsjávarveiðum, hann er ekki fyrir hendi í hefðbundinni bolfisksvinnslu og hinni hefðbundnu bolfisksútgerð.

Ég skil það sem sagt rétt, þetta er afmarkað á þennan flota 500–1.500 tonn. Þar á þetta að leggjast af fullu afli.