143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[20:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur náttúrlega sannanlega farið um fólk eftir að ný ríkisstjórn tók við í landinu en ég ætla samt ekki að gera því skóna að menn hafi almennt hrokkið út í svarta atvinnustarfsemi til að flýja núverandi ríkisstjórn.

Það sem ég er að rekja hér — hægt er að minna á það að fyrir aftan hv. þingmann situr hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Þegar hann var fjármálaráðherra, var það drýgstan hluta síðasta kjörtímabils, sinnti hann skatteftirliti afskaplega vel og lagði á það mikla áherslu.

Það sem við erum að tala um og hv. þingmaður verður að átta sig á er að maður heyrir stundum nýjar athugasemdir og nýjar ábendingar og þá verður maður að passa að hlusta, ekki bara tala. Og þá er það þannig að fyrir liggja viðvaranir og athugasemdir af hálfu ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra, ábendingar um að umfang svartrar atvinnustarfsemi hafi aukist. Þá verða allir að geta horft á það og hugsað: Bíddu, hvernig ætlum við að leysa úr því? Það er þá til dæmis hægt að ráðast í nýja tegund af átaki í því og það er það sem verið er að leggja upp með hér, að við leggjum fjármagn í það að vinna sérstakt átak í þessu efni (Gripið fram í.) vegna athugasemda sem fram hafa komið frá ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra um að þetta umfang sé mjög mikið, og það er þess vegna sem við leggjum þetta til.

Það er síðan alveg hægt, eins og hv. þingmaður er að reyna að gera, að hlæja það út af borðinu að hægt sé að ná 3 milljörðum þarna. (Gripið fram í.) Ja, þetta er kannski 10% af því sem margir telja að umfang svarta hagkerfisins sé, jafnvel segja sumir að þetta sé 5%. Hv. þingmaður verður bara ósköp einfaldlega að vaxa upp úr þeim samkvæmisleikjum að afbaka það sem sagt er. Við viljum taka á málinu. Það þarf að gera það með auknum fjárveitingum til að hægt sé að vinna betur í verkefninu. En það er (Forseti hringir.) eftir miklu að slægjast.