143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[20:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar í þessu máli, frumvarpi til laga um tekjuaðgerðir frumvarps til fjárlaga, þar sem fjallað er um tekjuskatt einstaklinga, virðisaukaskatt, launatengd gjöld, skatta á fjármálafyrirtæki o.fl. á þskj. 2.

Í inngangskafla þessa frumvarps er aðeins vitnað til almennra áforma núverandi ríkisstjórnar í skattamálum og vísað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar eru gefin ýmis fögur fyrirheit, m.a. boðuð úttekt á skattkerfinu sem fróðlegt væri að vita hvar er á vegi stödd, reyndar á að gera úttekt á breytingum undanfarinna ára, einföldun skattkerfisins er boðuð, breikkun skattstofna og fleira í þeim dúr.

Nú er ekki hægt að segja að þetta frumvarp eða önnur sem komið hafa enn sem komið er frá hæstv. ríkisstjórn boði mikil tímamót í þessum efnum, enda kannski varla við því að búast eða hægt að ætlast til þess, stjórnin hefur haft skamman tíma til að koma sínum áformum á blað. Í aðalatriðum er ég sáttur við það. Það er að mínu mati mikilvægt að það er a.m.k. ekki í þessari umferð hróflað við þrepaskipta tekjuskattskerfinu.

Það má segja að það votti líka fyrir ákveðnu raunsæi í umfjöllun greinargerðar frumvarpsins um að staða í ríkisfjármálum sé þröng og takmarkað svigrúm til lækkunar skatta. Ég fagnaði því voðalega þegar ég fann þennan texta því að mér hefur stundum fundist eitthvað upp á skorta, eins og menn héldu að þeir gætu gert hvað sem er í þessum efnum. Þarna er vottur af raunsæi á ferð eins og kunnugt er.

Nú hefur það sem betur fer komið í ljós og síðast í dag gladdist hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra yfir því að horfurnar eru á nýjan leik betri um útkomu þessa árs, tekjuhliðin er að styrkjast á nýjan leik og svartsýnisúthlaupið frá því í vor og mjög svartsýnn tónn í greinargerð fjárlagafrumvarpsins í haust á sem betur fer ekki við rök að styðjast. Þess sér meðal annars stað í því að meiri hluti fjárlaganefndar hefur endurskoðað á nýjan leik tekjuáætlunina til talsverðrar hækkunar. Það er sannarlega gleðiefni.

Það er auðvitað líka ljóst og búið að margræða það hér að hluti af þeim vanda sem við er að glíma á þessu og ekki síður næsta ári eru ákvarðanir ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Þarf ég ekki að endurtaka það sem sagt hefur verið þar um tekjutap með lækkun sérstaks veiðigjalds, að horfið var frá áformum um að færa virðisaukaskatt á gistiþjónustu upp í það sem hann var fyrir örlætisgerninginn 2007. Það er eins og allir gleymi því að hér var 14% virðisaukaskattur á gistingu og á þjónustu veitingahúsa og reyndar mat og menningu líka. Það gekk alveg þokkalega, t.d. var vöxtur í íslenskri ferðaþjónustu árin þar á undan þrátt fyrir 14% virðisaukaskatt á gistingu og miklu sterkara raungengi en nú er. Málatilbúnaður þeirra snillinga sem komu á þessu herrans ári eða í fyrra og reyndu að sannfæra mann um að íslensk ferðaþjónusta mundi alls ekki ráða núna við 14% virðisaukaskatt á gistingu, þegar hún upplifir einhvern ævintýralegasta vöxt sinn nokkru sinni og raungengi krónunnar er líklega um 20% undir langtímameðaltali, sögulegu meðaltali, gengur ekki alveg upp.

Það liggur líka fyrir að landið hefur fengið meiri kynningu og stendur markaðslega sterkara en nokkru sinni fyrr í sögu sinni. Það sýna allar kannanir. Ísland er komið miklu hærra á listann sem ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna þegar kannanir eru gerðar á því hvaða lönd þeir hafi hug á að heimsækja. Í ljós kemur að ótrúlegur fjöldi áhugasamra ferðalanga sem enn hefur ekki lagt leið sína til Íslands hefur áhuga á því að fara þangað. Þeir sem kunna að greina svona upplýsingar telja að staða okkar sé firnasterk og það sé við því að búast að við verðum áfram í sviðsljósinu og áfram vinsæll áfangastaður. Við þurfum kannski ekkert að hafa óskaplega mikið fyrir því enda heyrast þau sjónarmið frá einstökum mönnum. Ég held að það hafi verið einn af forsvarsmönnum Bláa lónsins sem beinlínis sagði í opinberri umræðu að Ísland væri sennilega að undirverðleggja sig í ferðaþjónustu miðað við það sem við gætum, miðað við eftirspurn og ef við trúum á að framboð og eftirspurn gildi þarna eitthvað.

Væri ekki ágætt að taka á því þannig að ríkið fengi aðeins meiri tekjur af þessari vaxandi grein? Má ég þá minna á að ferðaþjónustan slær sennilega metið í ár og verður stærsti gjaldeyrisskaffari íslenska hagkerfisins, fer fram úr sjávarútveginum. Það er nokkuð ljóst að það er að gerast. Ef metið fellur ekki í ár gerist það örugglega á næsta ári. Er það þá þannig að okkar stærsta atvinnugrein í skilningnum gjaldeyrisskapandi grein búi samt sem áður áfram við verulega sérstöðu í skattalegu tilliti og allt önnur og minni skattskil til ríkisins eða samfélagsins en aðrar burðugar atvinnugreinar? Það er óravegur frá því að ferðaþjónustan sé skattlögð með sambærilegum hætti og flest annað atvinnulíf. Má þar nefna ekki bara 7% skatt á gistingu og þjónustu veitingahúsa og annað því um líkt heldur núll skatt á hópferðir á afþreyinguna sem seld er innan greinarinnar í stórum stíl. Það vill nú svo undarlega til hjá okkur og geta svo sem ýmsir axlað sína ábyrgð á því að við erum enn með það fyrirkomulag að margs konar afþreyingarsala í ferðaþjónustu er flokkuð sem fólksflutningar, hvalaskoðun, jöklaferðir, hestaferðir, allt með núll prósent virðisaukaskatti. Hvað á það eiginlega að þýða? Maður veltir því fyrir sér. Er það sanngjarnt gagnvart ýmsu öðru sem þarf að bera fullan skatt? Nei, það held ég ekki. Það liggur fyrir að þar gætu menn lagt meira af mörkum svo að ég tali nú ekki um sjávarútveginn.

Það sem ég hef aðallega haft áhyggjur af ekki síður en breytingunum á þessu ári eða hinu næsta eru framtíðarhorfurnar. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að með þessum pólitísku ákvörðunum er verið að veikja tekjugrunn ríkisins verulega til framtíðar því að skattar sem eru lækkaðir í ár eða á næsta ári, og ef til stendur að hafa þá síðan þannig, eru ávísun á tiltekið tekjutap ár eftir ár. Þegar við reiknum þetta upp í stærðir ríkisfjármálaáætlunar til meðallangs tíma verða þær fljótt stórar.

Það er ljóst að frá og með árinu 2015, ef svo heldur sem horfir, þegar auðlegðarskattur fellur niður, fer úr 9–10 milljörðum niður í núll, þegar tap af lægri sérstökum veiðigjöldum er þá kannski orðið 6–7 milljarðar, þegar tapið af lægri virðisaukaskatti í ferðaþjónustu er komið á þriðja milljarð og þegar búið er að lækka tekjuskatt einstaklinga um 5 milljarða þá er tekjutapið komið vel á þriðja tug milljarða, segjum 25 og margföldum það með fjórum sem er líftími ríkisfjármálaáætlunar til meðallangs tíma, það eru 100 milljarðar. Við tökum nú bara mjög hrátt dæmi. Bíddu, það er hægt að gera dálítið fyrir það. Ef við teljum ekki brýna þörf fyrir að leggja þá í velferðarþjónustu eða fjárfestingu og uppbyggingu í innviðum gætum við notað þá til að borga niður skuldir ríkisins. Það væri þó nokkuð ef við gætum lækkað sirka 1.500 milljarða skuldir ríkisins um 100 milljarða á fjórum árum með þessu einu. Það fer strax að segja til sín, lækkar skuldahlutfallið um 7% í viðbót við það sem ella væri.

Í staðinn blasa við okkur horfur til næstu ára sem eru óásættanlegar og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur viðurkennt það. Það er auðvitað alveg óásættanlegt að afkoma ríkissjóðs verði í blájárnum næstu fjögur árin, enginn afgangur og staðan versni heldur aftur milli áranna 2015 og 2016 og 2016 og 2017. Þá verðum við komin niður í núllið aftur eftir kannski 2–4 milljarða afgang á árinu 2015 miðað við framreikninginn.

Við höfum sýnt það með breytingartillögum okkar og erum ófeimin við það að það er til önnur leið: Að treysta áfram og viðhalda þessum tekjugrunni ríkisins. Í fæstum tilvikum þarf eða þyrfti enn að hækka skatta. Þetta er bara spurning um viljann til að halda tekjunum. (Gripið fram í.) Er það svo slæmt þegar við horfum til þess að almennt eru skatthlutföll lág á Íslandi, mun lægri en annars staðar á Norðurlöndum? Og jafnvel þó að við tökum skattfrelsi lífeyrisinngreiðslna með sem margir vilja gera í svona samanburði — er þó ekki að vísu alveg rétt — þá erum við enn í lægri kantinum á Norðurlöndunum. Ef við tökum hlutfall hins opinbera af landsframleiðslu þá er það þannig. Og við munum ekki reka hér norrænt velferðarsamfélag nema hafa manndóm í okkur til þess að afla tekna með hliðstæðum hætti og nágrannalöndin gera.

Það sem ég hef líka áhyggjur af í efnahagslegu og hagstjórnarlegu tilliti er jafnvægið í þessum aðgerðum og hvaða áhrif þær hafa að því marki sem þær eru af þeirri stærð að þær séu teljandi í efnahagslegu samhengi á jafnvægið í hagkerfinu. Hér er augljóslega verið að velja allt aðra leið en meira og minna hefur verið leiðarljósið undanfarin fjögur eða fimm ár, þ.e. hina blönduðu leið, að menn takist á við þann vanda sem eftir stendur í ríkisfjármálunum og komi okkur þá þessa vegna yfir í sæmilegan afgang með því að leggja áherslu á báðar hliðar, þ.e. að reyna að treysta tekjur og tekjuöflun en draga líka úr útgjöldum og sparnaði.

Ég er ekki hagfræðingur, frú forseti, eins og allir vita, heldur aumur jarðfræðingur og vörubílstjóri og bóndasonur, enda þurfti ég enga hagfræði að læra til þess að sjá það í hendi mér árið 2009 að vandi ríkisfjármálanna á Íslandi var óleysanlegur nema gera hvort tveggja, reyna eins og mögulegt var að treysta tekjurnar, afla einhverra tekna upp í hrun þeirra sem var orðið og taka líka á útgjaldahliðinni. Öðruvísi hefði þetta aldrei gengið því að hvorki niðurskurðurinn einn né tekjuöflunin ein hefði gengið upp. Við hefðum ofboðið þessu á hvora hliðina sem var ef við hefðum ætlað að reyna að ná niður 200 milljarða halla bara með niðurskurði eða bara með skattahækkunum. Einhver blanda var augljóslega eina vitræna og eina færa leiðin og kannski var listin að reyna að finna hvar sú blanda ætti að vera, hversu sterkur átti kokteillinn að vera af skattahækkunum eða tekjuöflunaraðgerðum og sparnaði.

Við náðum þokkalegu samkomulagi um það, meira að segja aðilar vinnumarkaðarins gengu inn á það án þess að þurfa að skrifa upp á það í sjálfu sér vorið 2009 að við settum okkur þau markmið að vera innan markanna 45/55. Önnur hliðin lagði mikla áherslu á að niðurskurðurinn yrði efri talan og tekjuöflunin lægri talan en hin hliðin hitt. Útkoman er sú, þegar litið er lauslega yfir þessi fjögur ár, að aðgerðir sem hafa treyst tekjur ríkisins og aðgerðir sem hafa dregið úr útgjöldum eru ekki langt frá því að vera til helminga.

Það er af þessari leið sem er að hluta verið að hverfa. Það er mér mikið áhyggjuefni því að ég tel að reynsla okkar af þessari leið sé góð. Alþjóðleg umræða hefur breyst mikið undanfarin missiri í þessum efnum. Það þykist ég þekkja sæmilega, ég er búinn að sækja margar ráðstefnur og fundi um þessi mál undanfarin fimm ár á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Alþjóðabankans, Efnahags- og framfarastofnunarinnar og fleiri aðila. Það er búið að vera mjög fróðlegt satt best að segja að upplifa þá umræðu sem verið hefur á alþjóðavettvangi um það hvernig sé skást að takast á við þetta, frá sjokktaugaveiklunar- og taugaáfallsviðbrögðunum framan af, t.d. á árunum 2009 og 2010 þegar einstaka menn héldu enn í vonina um að þetta væri bara smáhiksti í kerfinu og það þyrfti aðeins að fínstilla regluverkið, og yfir í það að miklu róttækari hugmyndir hafa fengið brautargengi í þessum efnum og verulegt fráhvarf hefur verið frá gömlu dogmatísku einstrengingslegu hugmyndunum sem víða réðu húsum í byrjun.

Sjálfur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur opinberlega endurskoðað áherslur sínar og gefið út bók þar sem hann hvetur lönd í þrengingum til þess að gera hvort tveggja, reyna að afla tekna og leggja þar með byrðarnar á þá sem mest séu aflögufærir og spara útgjöld. Hann er í reynd horfinn frá hinni gömlu blindu niðurskurðarstefnu, „austerity“-stefnu, ef ég má sletta því, forseti.

Varðandi tekjuskattsbreytingarnar sem hér eru á ferð er í frumvarpinu lagt til að lækka skatthlutfall í miðþrepi um 0,8%. Þetta kostar ríkið 5 milljarða kr. Þessa ráðstöfun teljum við vinstri græn bæði ótímabæra og illa útfærða. Við teljum miklu skynsamlegra að halda þessum tekjum inni. Þetta er ekki skattalækkun sem þennan hóp munar mikið um nema allra tekjuhæsti hlutinn, sá sem er upp undir hátekjuþrepi, með um 730 þús. kr. á mánuði eða svo, hann fær jú einhverja 2 þúsundkalla út úr þessu, en þorrinn fær miklu lægri fjárhæðir sem varla teljast af því að þetta er svona útfært. 5 milljarðarnir yrðu vissulega góð búbót fyrir ríkið á þessum tímum og hefði t.d. algjörlega skorið meiri hlutann niður úr snörunni. Það hefði ekki þurft að fara í neitt af því sem meiri hlutinn lét sig hafa til að skrapa saman 4 milljörðum í heilbrigðiskerfið ef menn hefðu haldið inni þessum tekjum í tekjuskattinum. Þá þyrfti ekki að skerða þróunaraðstoð, ekki vaxtabætur, ekki ganga enn meira í skrokk á Ríkisútvarpinu og þar fram eftir götunum, heldur þvert á móti yrði hægt með þessum tekjum að leggja heilbrigðiskerfinu til 4 eða þess vegna 5 milljarða í viðbót án þess að nokkurs staðar annars staðar þyrfti að höggva með sveðjuna á lofti.

Það er afstaða okkar, eigi að gera breytingu á álagningu í hinu þrepaskipta tekjuskattskerfi á annað borð, að óverjandi sé að hún komi hinum tekjulægstu ekki til góða. Það gerir þessi breyting ekki. Mér finnst menn hafa skautað undarlega létt yfir það og þar skiljum við okkur frá væntanlega öllum öðrum flokkum miðað við breytingartillögur Samfylkingarinnar. Við viljum að því marki sem menn færu í tekjuskattskerfið breyta því þannig að prósentan á lægsta þrepinu yrði lækkuð og tekjumörkin milli fyrsta og annars þreps færð upp. Það er langskilvirkasta leiðin til að skila skattalækkun til lágtekju- og lægra millitekjufólks. Þetta geta menn síðan sett inn í formúlur, reiknað út og séð hvernig kúrfan breytist ef við tökum hlutfall tekna sem fer í skattgreiðslur frá núlli í skattleysismörkum og síðan smávex það í prósentum, þá sjá menn augljóslega að dreifing skattbyrðarinnar verður best með þessu. Það er mjög einfalt að reikna þetta út og ég get gert það á svona klukkutíma ef ég yrði beðinn um það. Þetta er kannski 1–1,5% lækkun prósentunnar á lægsta þrepi, eða 0,8%, og síðan 50–70 þús. kr. hækkun á tekjumörkunum milli fyrsta og annars þreps. Einhvers staðar á því bilinu lægjum við þegar við værum farin að tapa eða missa út um 5 milljarða tekjur.

Skiptir þetta máli? Mér hefur næstum því fundist, sérstaklega talsmenn stjórnarflokkanna hér tala eins og þetta sé ekki neitt neitt. En hvernig er þetta í reynd? Hafa menn farið yfir það? Kunna allir hv. þingmenn það? Jú, þetta er þannig að af fyrstu 241.475 kr. sem menn hafa í laun á mánuði eru reiknuð 22,9% og ofan á það bætist 14,4% útsvar þannig að prósentan er þá 37,3. Frá þessu dregst að sjálfsögðu persónufrádráttur upp á tæpar 49 þús. kr. sem gerir 135.300 kr. skattleysismörk. Hvað þýðir það á mannamáli? Það þýðir að af fyrstu 106 þús. kr. sem koma til skattlagningar borga menn í lægsta þrepi. Það munar svo sannarlega um það þó að það sé sem betur fer ekkert óskaplega fjölmennur hópur sem endar þar, enda skiptir það ekki máli. En allir sem eru með tekjur undir 270–350 þús. kr. borga stærstan hluta skattsins í lágþrepi. Þess vegna væri gríðarlegur stuðningur við þá að útfæra breytinguna svona. Ég skil ekki hvernig menn geta borið það á borð að hoppa yfir lægst launaða fólkið og koma inn með skattalækkun á miðjuna. Það er mjög skrýtin ráðstöfun, alveg stórfurðuleg ráðstöfun. Jú, jú, millistéttin er fjölmenn og kannski er þetta ekki dýrara en svo, (Gripið fram í.) samanber áróðurinn, að nú eigi loksins að gera eitthvað fyrir millistéttina. Þá eru hinir bara skildir eftir því að það á að ganga í augu þeirra kjósenda sem skilgreina sig í millistétt í skattalegum skilningi. Við erum væntanlega að tala um skattalegan skilning ef við segjum að þetta séu þrír hópar, lágtekjufólkið, millitekjuhóparnir og hátekjufólkið. Já, það er ekki reisn yfir því, finnst mér. Þetta eru rangar áherslur.

Varðandi það sem hér er flutt um virðisaukaskatt gerir 2. minni hluti ekki athugasemdir við það. Ég fagna því þvert á móti að átakið Allir vinna er framlengt, 100% endurgreiðsla af vinnu á byggingarstað. Af því að hér voru orðaskipti áðan um umfang svartrar vinnu í hagkerfinu ber flestum saman um að þetta hafi verið mjög góð ráðstöfun, m.a. til þess að stemma stigu við því. Kannanir sýna, aðallega vinnumarkaðarins og ríkisskattstjóra, að ástandið hefur farið batnandi á meðal iðnaðarmanna og umsvif þeirra hafa í meira mæli verið að koma upp á yfirborðið, m.a. vegna þess að þetta er nægjanlega sterkur hvati fyrir fólk til þess að heimta reikninga fyrir öllum viðskiptum til að fá virðisaukaskattinn af hvers kyns viðhaldi og vinnu endurgreiddan að fullu. Auðvitað má velta fyrir sér hvort við getum fundið að einhverju leyti sambærilegar leiðir víðar. Ég held að mesta áhyggjuefnið núna í sambandi við svört umsvif sé í ferðaþjónustunni, það er held ég ekkert guðlast að segja það. Það er alveg augljóst mál að hún er í allt of miklum mæli neðan jarðar og svört. Það er ekki bara áhyggjuefni í skattalegu tilliti og með öllum þeim skelfilegu, ömurlegu hlutum sem því tengjast þegar sumir greiða skatta sína og skyldur að fullu en aðrir ekki, heldur er það líka í vaxandi mæli áhyggjuefni út frá öryggissjónarmiðum og öðru slíku því að starfsemi sem er svört í skattalegu tilliti hún er iðulega líka svört á öðrum sviðum. Tilskilin leyfi eru kannski ekki til staðar í ýmsum rekstri o.s.frv.

Um tryggingagjaldið væri margt hægt að segja. Svakalegast er hvernig farið er með Fæðingarorlofssjóð. Ég hef út af fyrir sig gert það áður að umtalsefni hér og get vitnað til þess. Í raun og veru hefur það vakið furðu mína hversu hljótt hefur verið um það hvernig ríkisstjórnin umgengst tryggingagjaldið í þessu frumvarpi sínu. Það er ósköp einfaldlega á mannamáli þannig að ríkið hirðir allan ávinninginn af minnkandi atvinnuleysi, af minni útgjöldum Ábyrgðasjóðs launa og helmingar tekjustofn Fæðingarorlofssjóðs og hirðir muninn. Það er þannig. Út í atvinnulífið og til launagreiðenda í landinu er skilað 0,1% lækkun og svo stæra menn sig af því þegar ríkið sópar til sín á annan tug milljarða með því að hremma svigrúmið sem myndast hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, hjá Ábyrgðasjóði launa og helminga tekjustofn Fæðingarorlofssjóðs og ganga svo hart að honum að hann stórgengur á eigið fé sitt á næsta ári, og er þó búið að slá af öll áform um að lengja fæðingarorlof o.s.frv. Þetta finnst mér vera ævintýralegt metnaðarleysi.

Ég undrast hina þögulu vini mína meðal aðila vinnumarkaðarins, öðruvísi þeim áður brá. Er allt í lagi að svona hlutir gerist af því að það eru komnir réttir menn til valda? Ég ætla að leyfa mér að segja það úr þessum ræðustóli, frú forseti. Eru Samtök atvinnulífsins núna kjaftstungin af því að Sjálfstæðisflokkurinn er í fjármálaráðuneytinu? Er hugsanlegt að það hefði heyrst eitthvað úr þeim ranni ef ég hefði enn verið þar á stóli? Muna menn árásirnar á fyrra kjörtímabili þegar kröfurnar voru úr annarri átt?

Ég man alveg hvernig þetta var. Það ætlaði allt vitlaust að verða þegar við ætluðum að leyfa okkur að laga til stöðuna um 0,1 eða 0,2% af tryggingagjaldsstofninum. Það er vissulega rétt að verulegur halli er á því sem almenna tryggingagjaldið átti á sínum tíma að standa undir, útgjöldum í almannatryggingakerfinu. Þá heyrðist hljóð úr horni og var sagt: Nei, svik — eins og alltaf, það voru allt svik — atvinnulífið á strax að fá lækkun á tryggingagjaldi með lækkandi atvinnuleysi, strax og engar refjar. Hvar eru hetjurnar núna? Þeir sætta sig við 0,1% lækkun á tryggingagjaldinu í heild á meðan ríkið sópar algjörlega til sín tekjum af því.

Veit ég þó vel að vandi ríkisfjármála er mikill og ég hef á því ríkulegan skilning, nema hvað, en það er samt eðlilegt að ræða hlutina eins og þeir eru. Hér er verið að fara í eina af stóru aðgerðunum til þess að ná að nafninu til núlli í afkomu ríkissjóðs á næsta ári. Sóttar eru tekjur í tryggingagjaldið alveg grimmt en þær fara út til millitekjuhópanna í tekjuskattskerfinu, ekki satt? Jú. Þar monta menn sig nefnilega af skattalækkun. Í reynd er lækkunin á kostnað atvinnulífsins vegna þess að atvinnulífið fær ekki að njóta lægra atvinnuleysis og minni fjárþarfar Ábyrgðasjóðs launa og þess vegna Fæðingarorlofssjóðs sem hefði vissulega alveg komist af með eitthvað lægri tekjustofna en hann hafði.

Þá ber næst að nefna sérstakan bankaskatt, virðulegur forseti. Það sem þar er á ferðinni eru veruleg tíðindi. Hér er lagt til að færa inn undir skattinn fjármálafyrirtæki í slita- eða skiptameðferð og stórhækka auk þess skattinn verulega. Skatturinn var innleiddur á síðasta kjörtímabili með lögum nr. 155/2010. Þá var sambærileg gjaldtaka að ryðja sér til rúms í nokkrum nálægum löndum eða var fyrirhuguð. Við skoðuðum strax þau fordæmi og ákveðið var að hafa þetta bankaskatt hliðstæðan því sem þekkist, rökstyðja hann með tvennum hætti sérstaklega, einfaldlega þörf ríkissjóðs fyrir fjármuni og kostnaðurinn sem fjármálakerfið hafði valdið með framferði sínu árin á undan. Svo útfærðum við skattinn þannig að hann drægi frekar en hitt úr áhættusækni í kerfinu. Það gerir hann ekki síst út af því að hann er lagður á skuldahlið fjármálafyrirtækjanna þannig að það kostar þau í sjálfu sér að þenja út efnahagsreikning sinn vegna þess að þá borga þau meira og meira af stærri og stærri stofni í bankaskatt.

Þessi rök eru fullgild í dag. Varðandi það að taka búin þarna inn undir þá var það skoðað lítillega á sínum tíma, árið 2010, en fljótlega fallið frá því sem óframkvæmanlegu á þeim tímapunkti. Það var mat þeirra sem það gerðu að það yrði illframkvæmanlegt eða erfitt a.m.k. að koma slíkum skatti við einhver missiri í viðbót vegna þess hversu óljós staða búanna væri. Nú hefur það verulega breyst, það er rétt, og þá er mjög áhugaverður kostur að fara í þessa skattlagningu. Það á ekki að koma erlendum eigendum krafna í hinum föllnu búum á óvart.

Ég hafði dálítið gaman af því, frú forseti, þegar menn töluðu hér fyrir kosningar eins og þeir hefðu uppgötvað þann sannleika að það gæti komið til þess að það þyrfti að verðfella þessar krónueignir erlendra aðila sem læstar eru inni í hagkerfinu bak fjármagnshöftum. Það var ekki aldeilis ný hugmynd, það var gert frá upphafi. Þær eru verðfelldar með uppboðum Seðlabankans þar sem eigendur krónueignanna verða að sætta sig við 110 eða 120 kr. fyrir hverja evru. Þær voru verðfelldar í Avens-viðskiptunum, þær voru verðfelldar í mörgum stórum samningum sem gerðir hafa verið um að hleypa einhverjum út á allt öðru gengi en skráðu álandsgengi. Það hefur staðið til og legið fyrir í afnámsáætlun um gjaldeyrishöft frá 2011 að væntanlega yrði tekinn upp útgönguskattur þegar uppboðstímabilinu lyki og ef menn fengju að fara út með fjármuni sína mættu þeir búast við því að þeir yrðu verðfelldir eða gengisfelldir með útgönguskatti. Þess vegna er hugmyndin ekki ný heldur gömul og í þeim skilningi má segja að það eigi ekki að þurfa að koma kröfuhöfunum á óvart að þeir sæti skattlagningu.

Hér er hins vegar mjög hátt reitt til höggs. Ríkið veðjar á gríðarlega mikilvægan tekjustofn næstu árin. Mér sýnist að til þess að formúlan gangi upp og skuldalækkunarféð skili sér líka hljóti bankaskatturinn að eiga að fara í 35 milljarða eða þar um bil næstu tvö ár og 23,5 milljarða eða svo næstu tvö ár þar á eftir. Ef 14,4–14,5 milljarðar eiga einfaldlega að skila sér núna samkvæmt fjárlagafrumvarpinu og rúmir 20 milljarðar í viðbót til að fjármagna skuldaniðurfærsluna þá erum við komin í þessa tölu, 35 milljarða. Síðan segir reyndar í greinargerð frumvarpsins að þessi skattur hverfi eftir tvö ár því að þá metur ráðuneytið það svo að slitum búanna verði að fullu lokið, þ.e. í árslok 2015, það stendur í greinargerðinni. Þá gufar skattstofninn að því leyti upp. Þá á einhvern veginn eftir að afla tvisvar sinnum 23 milljarða til þess að ekki komi gat í kerfið. Það er ekkert útskýrt nánar hvernig þetta tvennt gengur upp. Með öðrum orðum, 115–120 milljarðar á fjórum árum aukalega í bankaskatt umfram það sem hann er í dag, það er það sem þetta snýst um. Þá segi ég, frú forseti: Það er eins gott að ekkert klikki því að þarna er aldeilis lagt mikið undir.

Efnahags- og viðskiptanefnd vann í ágætissamvinnu að því að lagfæra þetta frumvarp og reyndi að breyta og rökstyðja þessa skattheimtu eins vel og mögulegt væri til að auka líkurnar á því að hún héldi. Ég er tiltölulega sáttur við þá vinnu, tel breytingarnar vera til bóta og ég styð þær og tek í aðalatriðum efnislega undir hinn lögformlega rökstuðning í nefndaráliti meiri hlutans. Ég verð að vísu að segja að lokum að það er miður að við höfum ekki enn fengið að sjá hina endanlegu álagningartölu. Hún mun boðuð milli 2. og 3. umr. og verður þá stuttur tími til að skoða hana betur. Ég tel málið hafa batnað með vinnu nefndarinnar en það er auðvitað ekki hægt að horfa fram hjá því að enn er ákveðin óvissa og það er heldur ekki hægt að horfa fram hjá því að þessi skattur er í tilteknu samhengi við hið risavaxna verkefni að vinda ofan af gjaldeyrishöftunum og leysa upp hina erfiðu krónustöðu þar sem erlendir aðilar eiga krónur læstar bak gjaldeyrishöftum.

Annar meiri hluti flytur breytingartillögur sem eru í samræmi við þær áherslur sem ég hef hér talað fyrir. Í fyrsta lagi að tekjuskattslækkunin hverfi út. Í öðru lagi leggjum við til, þó að það sé ekki inni í þessu frumvarpi, að heimildir til að leggja á auðlegðarskatt verði framlengdar og verði til staðar á næsta ári þannig að auðlegðarskattur komi áfram til greiðslu á árinu 2015, lítillega breyttur reyndar. Við komum til móts við tiltekin gagnrýnissjónarmið sem hafa heyrst með því að taka upp visst viðbótarfrítekjumark fyrir hreina eign sem bundin er í íbúðarhúsnæði til eigin nota. Ætti þá að vera sæmilega mætt þeim (Forseti hringir.) sjónarmiðum sem hafa talið að skatturinn væri þungur og ósanngjarn gagnvart þeim sem ættu stærstan hluta eigna sinna í skuldlausu íbúðarhúsnæði (Forseti hringir.) og hefðu litlar aðrar tekjur.