143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalegt og gott andsvar. Hann sagði að hann vildi skoða hlutina betur og ef ég get aðstoðað hv. þingmann eitthvað eða upplýst um þetta mál geri ég það glaður. Mér finnst alveg furðulegt hvað þetta hefur verið lítið í umræðunni. Mörgum spurningum er líka ósvarað. Það er óskiljanlegt af hverju Ríkiskaup komu ekki að málinu eða neinn slíkur aðili. Þetta virðist hafa verið gert á milli einhverra stjórnmálamanna. Í þessari heimild segir, með leyfi forseta:

„Að leigja húsnæði í Perlunni í Reykjavík af Reykjavíkurborg fyrir Náttúruminjasafn Íslands í samræmi við leigusamning sem undirritaður var hinn 13. mars 2013.“

Við leggjum til að þetta verði alls ekki gert svo það sé alveg skýrt. Þetta húsnæði hentar mjög illa fyrir náttúruminjasafn enda var gert ráð fyrir 500 millj. kr. í að setja upp safnið. Nú erum við að takast á um svo miklu lægri upphæðir. Við erum að tala um 83 milljónir í leigugreiðslu á hverju einasta ári, verðtryggt, óuppsegjanlegt í 15 ár. Við erum að tala um 130 milljónir kr. í rekstur og ef einhver telur að það sé mikill hagnaður fyrir ríkið að fara út í svona safnarekstur hvet ég viðkomandi til að skoða fjárlög Íslands þegar kemur að söfnum. Við eigum glæsileg söfn sem við erum svo sannarlega stolt af en samt sem áður þurfum við að nýta skattfé til að greiða með þeim á hverju einasta ári. Það er alveg skýrt að við leggjum til að þessum samningi verði hafnað, hann verði ekki staðfestur af þinginu. Það væri fullkomlega óábyrgt að gera það svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Virðulegi forseti. Ég hef sagt við þá sem hafa haft samband við mig, sem eru nokkrir, að hafa samband við hæstv. menntamálaráðherra og menntamálaráðuneytið. Það er nú mikið að gerast á þeim vettvangi en ég efast ekki um að þar sé áhugi. Við vitum þó öll hver staðan er í fjármálum ríkisins, (Forseti hringir.) það er búið að ræða hana síðustu vikurnar, (Forseti hringir.) þannig að ég á ekki von á skjótri úrlausn, virðulegi forseti.