143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:41]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi hef ég ekki setið lengur á þingi en hv. þm. Vigdís Hauksdóttir svo það sé leiðrétt hér.

Í öðru lagi frábið ég mér það að menn haldi því fram, eins og hv. þingmaður gerði áðan, að ég fari með hálfsannleik í mínu máli.

Í þriðja lagi er verið að bera saman millifærslur í menntamálaráðuneytinu þar sem verið er að færa til af liðum til að safna í sjóð í fjáraukalögum til að nota á árinu 2014 og hins vegar markaðar tekjur fjarskiptasjóðs sem samkvæmt lögum eiga að renna til sjóðsins. Þetta er alveg fullkomlega ósambærilegt (Gripið fram í.) og ef þið lítið á 6. gr. í lögunum sjáið þið að það stendur bara að tekjur af útboðinu eigi að renna til sjóðsins. Ef það er ákvörðun fjárlaganefndar að gera það ekki er það brot á þeim lögum og búið að ákveða að mörkuðu tekjurnar hjá fjarskiptasjóði eigi ekki að renna til hans.