143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:51]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af ræðu hv. þm. Bjarkar Gunnarsdóttur þá vildi ég spyrja hana hvort hún hefði ekki kynnt sér þau gögn sem fyrir liggja um þann lið fjáraukalaga sem við leggjum til vegna Bolungarvíkur. Sem andsvar við ræðu hennar vil ég draga í efa það sem hún var að fullyrða og ræða að þetta væri fordæmisgefandi. Það er ágætlega rakið í þeim gögnum sem liggja undir í þessu máli og nefndarritarar hafa auglýst að þau liggi fyrir og að nefndarmenn geti sótt þau. Þarna er einfaldlega um vanefndir af hálfu hins opinbera að ræða og raunverulega verið að gera samkomulag um að ljúka deilum sem upp úr þessum samningi hafa sprottið. Það er mitt andsvar við ræðu hv. þingmanns.