143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:55]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það þarf ekkert að lengja þessa umræðu mikið. Eins og ég sagði áðan kemur ekkert fram um það að Íbúðalánasjóður ætli að afskrifa restina og það sem Bolungarvíkurkaupstaður telur að út af standi. Ekki er komið fram erindi og ekkert liggur fyrir um það af þeirra hálfu og það er stór hluti af því sem um ræðir. Ég hefði gjarnan viljað sjá það.

Íbúðalánasjóður gerir athugasemdir og það kemur fram í bréfi Bolungarvíkurkaupstaðar sem þeir lögðu fyrir fundinn hjá fjárlaganefnd þar sem þeir rekja sína hlið málsins. Síðan segi ég bara enn og aftur: Ég tel að það sé álitamál hvort Eftirlitsnefnd sveitarfélaga, hvort sem það kemur sér illa fyrir sveitarfélögin sem fyrir því verða, getur skuldbundið einhverja aðra til þess að standa við gerða samninga.

Það er þannig, þegar bréfin sem lágu fyrir í morgun eru lesin, bréfin sem ég las, að hvergi kemur fram að eitthvað eigi að gera. Það kemur alls staðar fram að það sé leitað eftir einhverju, bent er á leiðir; það eru ábendingar. Hvergi er sagt að Íbúðalánasjóði beri að gera eitthvað. Eftirlitsnefnd sveitarfélaga er ekki að segja að svona eigi þetta að vera, hún bendir bara á leiðir. Þess vegna velti ég fyrir mér hversu skuldbindandi svona samningur sé, sama hvort það á við um þetta sveitarfélag eða eitthvað annað. Það er bara það sem ég er að hugsa um í þessu máli.