143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því ég var að tala um Ríkisútvarpið voru á árinu 2007 samþykkt lög nr. 61/2007, þar sem Ríkisútvarpið ohf. var stofnað sem hlutafélag í eigu ríkisins. Samkvæmt lögunum er helstu tekjustofn þess sérstakt gjald, útvarpsgjald, sem skattstjórar leggja á samhliða álagningu opinberra gjalda. — Virðulegur forseti. Ég held ég hafi ekki fengið þann tíma sem …

(Forseti (SJS): Nei, það verður lagfært.)

Það er gott. Ef maður fer yfir mismunandi tekjur og framlög árið 2009, þ.e. það sem fór inn í ríkissjóð, þá fóru þangað 889 millj. kr. árið 2009, 768 millj. kr. árið 2011, 990 millj. kr. 2012, 925 millj. kr. árið 2013 og gert er ráð fyrir 696 milljónum 2014. Það er gott dæmi um það ef menn eru með einhverjar markaðar tekjur fyrir sérstakt verkefni, en síðan er það bara nýtt í annað.

Það gildir nefnilega ekki það sama fyrir alla. Flestum finnst óþolandi, held ég, ef maður rekur t.d. heilbrigðisstofnun með framlögum ríkisins og síðan fá aðrir kannski markaðar tekjur og fá jafnvel allt hlutfallið alveg sama á hverju gengur, stundum hækka mörkuðu tekjurnar þó að það hafi ekkert að gera með umsvif viðkomandi stofnunar.

Prinsippið sem við ræddum áðan sneri ekki að því í þessu máli, heldur því að enginn vafi lék á því að mörkuðu tekjurnar áttu að fara í fjarskiptasjóð. Síðan er fjarskiptasjóður bundinn þeim klafa að hann þarf að greiða Farice. Það er langt í að við greiðum upp þann reikning, því miður. Allt kemur féð úr opinberum sjóðum með einum eða öðrum hætti. Síðan er hitt að þegar við samþykkjum útgreiðsluna brjótum við svipað prinsipp og þegar við snerum til baka varðandi menntamálin, þ.e. framlagið úr fjarskiptasjóði í þessi verkefni verða tæplega nýtt á árinu 2013 þrátt fyrir að þetta heiti fjáraukalög 2013, heldur verður það í fyrsta lagi gert 2014. (Forseti hringir.)