143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[22:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um Orkuveitu Reykjavíkur frá meiri hluta atvinnuveganefndar. Nefndin hefur fjallað um málið að nýju eftir 2. umr. þess í þinginu og fékk á sinn fund Ingva Má Pálsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Rætt var meðal annars um 2. gr. frumvarpsins þar sem starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur er afmörkuð. Í 2. mgr. 2. gr. er kveðið á um aðra starfsemi fyrirtækisins, þ.e. að fyrirtækið geti stundað aðra starfsemi sem geti nýtt rannsóknir, þekkingu eða búnað fyrirtækjanna sem og iðnþróun og nýsköpun.

Meiri hlutinn leggur til að því verði bætt við 2. mgr. að slík önnur starfsemi verði að tengjast kjarnastarfsemi fyrirtækisins. Meiri hlutinn telur að í kjarnastarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur felist rekstur vatnsveitu, hitaveitu, rafveitu og fráveitu sem og sala og framleiðsla á rafmagni og heitu og köldu vatni. Framangreind atriði eru talin til kjarnastarfsemi í eigendastefnu fyrirtækisins sem var samþykkt af borgarstjórn Reykjavíkurborgar 19. júní 2012, bæjarstjórn Akraneskaupstaðar 12. júlí 2012 og sveitarstjórn Borgarbyggðar 21. júní 2012.

Þá leggur meiri hlutinn til nokkrar tæknilegar breytingar á frumvarpinu, þ.e. á 4. og 5. mgr. 2. gr. og á ákvæðum til bráðabirgða sem eru til komnar vegna athugasemda frá embætti ríkisskattstjóra. Einnig er lagt til að orðalag í 1. mgr. 5. gr. verði lagfært.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali sem fylgir hér með.

Undir þetta rita hv. þm. Jón Gunnarsson, Ásmundur Friðriksson, Björt Ólafsdóttir, Kristján L. Möller og Páll Jóhann Pálsson.

Fjarverandi voru Haraldur Benediktsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir.