143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[22:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að þetta mál hefur verið tilefni til umræðu og mörgum hefur þótt sem svo að gengið hafi verið fulllangt í þessum efnum. Málið kom upp í tvígang á síðasta kjörtímabili þar sem lögð voru fram mál um að fresta því að þessi lög tækju gildi gagnvart Orkuveitu Reykjavíkur. Öll önnur raforkufyrirtæki í landinu hafa uppfyllt lögin.

Ástæður þess að óskað var eftir þessu hjá Orkuveitu Reykjavíkur var erfið staða fyrirtækisins, sérstaklega eftir efnahagshrunið, og þeir töldu að þetta gæti haft verulega alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtækið, m.a. á afstöðu lánardrottna þess. Það var því í tvígang sem málinu var frestað. Ég minnist þess ekki að á þeim tíma hafi þáverandi stjórnvöld séð ástæðu til þess að taka málið upp og fara þá leið sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur verið að tala fyrir núna, að við fellum niður innleiðingu tilskipunarinnar og þau lög sem um það gilda, þótt vissulega hefðu þeir ríkisstjórnarflokkar sem þá voru við völd haft tækifæri til þess.

Ég tel ákaflega mikilvægt að afgreiða þetta mál þannig að öll fyrirtæki sitji við sama borð í þessu landi gagnvart samkeppni á þessum markaði. Það er svo allt annað mál hvort menn þurfa að skoða það í fullri alvöru að fara í að skoða þann möguleika að afnema þessa tilskipun. Það kom fram í umsögnum og á fundum með eigendanefnd Orkuveitu Reykjavíkur að þeir teldu að það væri ákjósanlegri leið, en það er auðvitað miklu meira og stærra mál og tekur lengri tíma. En þegar fresturinn var gefinn 2011 var það (Forseti hringir.) tekið mjög skýrt fram af meiri hluta atvinnuveganefndar (Forseti hringir.) á þeim tíma að það væri lokafrestur og þetta yrði (Forseti hringir.) látið taka gildi gagnvart Orkuveitu Reykjavíkur (Forseti hringir.) á næsta ári.