143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[22:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni að mjög óljóst sé hvort það sé yfir höfuð raunhæft að reikna með því að við gætum fengið tilskipunina fellda úr gildi og breytt þar með leikreglum hér á þessum markaði aftur. Ég held að það þyrftu að liggja ansi sterk rök til grundvallar. Ég minnist þess ekki að hafa séð sérstaka úttekt á því, þó minnist ég þess að hafa séð úttekt frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands þar sem meðal annars var fjallað um þessi mál og almennt var umsögnin þar, eftir því sem ég man, að þeir teldu að þetta fyrirkomulag væri til hagsbóta fyrir neytendur.

Þetta er auðvitað alveg sérstakt mál sem þyrfti að skoða hjá fulltrúum Orkuveitu Reykjavíkur, bæði hjá stjórnendum og lögfræðingi Orkuveitunnar, sem kom á fund nefndarinnar núna við afgreiðslu málsins. Það kom fram að stjórnendur hefðu verið í góðu sambandi við lánveitendur sína og voru nýkomnir úr ferð til þeirra og stjórnendurnir höfðu ekki áhyggjur af því, og það komu heldur ekki fram áhyggjur hjá fulltrúum eigendahópsins, að gildistakan gagnvart Orkuveitu Reykjavíkur nú um áramótin mundi hafa neikvæð áhrif á fyrirtækið.

Ég ítreka að það kom skýrt fram hjá fulltrúum eigendahópsins að þeir teldu að raforkutilskipunin væri ekki til hagsbóta fyrir íslenskan markað án þess að vera með einhverja sérstaka skýrslu eða rökstuðning fyrir því. Það kom fram og einnig að að þeir teldu best að þingið mundi leita leiða til þess að afnema þetta.

Eins og ég sagði áðan tel ég að það sé miklu stærra mál. Ég held að mikilvægt sé að þingið ljúki þessu núna sem er í raun eðlilegt framhald af (Forseti hringir.) fyrri umfjöllun um málið á síðasta kjörtímabili, að þessi lög gildi um Orkuveituna alveg eins og önnur (Forseti hringir.) félög þannig að samkeppnisstaðan sé sem jöfnust.