143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[22:38]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Mig langar til þess að blanda mér aðeins í umræðuna um það mál sem hér er á dagskrá, í framhaldi af þeim orðaskiptum sem ég átti við hv. formann atvinnuveganefndar, hv. þm. Jón Gunnarsson, í andsvörum áðan. Það lýtur fyrst og fremst að grundvellinum undir þeirri lagasetningu sem hér er til umræðu, þ.e. raforkutilskipun Evrópusambandsins 2003/54/EB (Gripið fram í.) og 2009/72/EB. Hafið það til marks, eins og maður segir á þessum tíma ársins, að hér erum við að ræða um eina almestu aðlögun að regluverki Evrópusambandsins sem nokkru sinni hefur verið innleidd hér á Íslandi. — Ég heyri að ég skemmti hæstv. utanríkisráðherra mjög með þessari tilvitnun. Það vill náttúrlega þannig til að það voru einmitt þeir hinir sömu stjórnmálaflokkar sem sátu í ríkisstjórn á þessum tíma árið 2003, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, sem nú sitja, sem innleiddu þessa raforkutilskipun. (Utanrrh.: Það voru mistök.) Það voru mistök eins og hæstv. utanríkisráðherra kallar fram í. Um það er ég honum algerlega sammála. Þess vegna finnst mér illt að við séum á þessum stað nú að ræða þetta og ég gat um það í andsvari áðan að ég teldi að margir þeirra, kannski ekki einstaklingar, segjum heldur stjórnmálaflokkar, sem stóðu að þessu á sínum tíma hafa séð að sér hvað þetta varðar eða a.m.k. séð að það voru mistök að innleiða þessa raforkutilskipun hér á landi.

Tilgangur hennar var hinn sameiginlegi orkumarkaður í Evrópu og það þurfti nú lítið annað en að horfa á landakortið til að átta sig á því að Ísland væri ekki hluti af honum. Við erum ekki hluti af þessum sameiginlega orkumarkaði, erum ekki tengd við orkumarkað Evrópu, a.m.k. ekki enn þá þó að það kunni svo sem einhvern tíma að breytast í framtíðinni, hvað veit maður um það. En við erum það ekki. Í þessu tilfelli gengu menn lengra en meira að segja tilskipun EB kvað á um vegna þess að hún gerði ráð fyrir því að fyrirtækið þyrfti að skipta sér upp ef kerfið næði til eða þjónaði fleiri en 100 þúsund tengdum viðskiptavinum.

Við þær aðstæður var varla við því að búast að hún ætti við hér á landi vegna þess að eini staðurinn sem komst í námunda við þann fjölda var þá svæði Orkuveitu Reykjavíkur og á þeim tíma voru þar ekki 100 þúsund tengdir viðskiptavinir, því það er ekki íbúafjöldinn sem gildir heldur íbúðafjöldinn, þeir aðilar sem eru tengdir, þeir eru heldur færri en íbúarnir. En eftir sem áður var tekin um það ákvörðun hér að miða ekki við 100 þúsund tengda viðskiptavini heldur var hún látin ná til dreifiveitna þar sem fjöldi íbúa á dreifiveitusvæðinu er 10 þúsund eða fleiri. Þá er náttúrlega verið að tala um allt aðra hluti í íslensku samhengi. Þá var tilskipunin allt í einu farin að ná til miklu fleiri og fyrirtækjunum var gert að skipta upp rekstri sínum í samræmi við hana.

Um þessa raforkutilskipun hefur sem sagt verið tekist á í þessum sal á undanförnum árum og á sínum tíma allmikið og Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafði uppi mjög harða gagnrýni á hana á sínum tíma og barðist gegn henni. Þáverandi ríkisstjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, töldu rétt að innleiða hana og stóðu þá fyrir, eins og ég segi, þessari geysilega miklu aðlögun að regluverki Evrópusambandsins sem þeir núna, ég veit ekki hvað ég á að segja, reyna að hlaupa frá hvað mest þeir mega. Þess vegna finnst mér einhvern veginn, af því að ég veit að í þessu efni eigum við í Vinstri grænum hauk í horni í hæstv. utanríkisráðherra, að ráðherrann ætti að leggja okkur lið í þessu máli og reyna að koma því þannig fyrir að ekki þyrfti að verða af þessari lagasetningu og að minnsta kosti að menn frestuðu þessu máli eina ferðina enn. Það má kannski velta því fyrir sér af hverju það var ekki búið að setja þetta út af borðinu í eitt skipti fyrir öll á undanförnum árum, en það kom ágætlega fram í orðaskiptum mínum og hv. þm. Jóns Gunnarssonar áðan að það voru ástæður fyrir því að málið fór í ákveðna biðstöðu eftir hrunið 2008 að því er varðar Orkuveituna. Nú er það sem sagt komið hingað með þessum hætti.

Eins og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir gat um í ræðu sinni áðan hefur hún, sem er fulltrúi vinstri grænna í atvinnuveganefnd, lagt fram breytingartillögu þar sem gert er ráð fyrir því að gildistöku þessara laga verði frestað til ársins 2016. Ég tel að ef það yrði niðurstaðan væri hægt að gera svipað og hv. þm. Jón Gunnarsson talaði einmitt um áðan, að fara yfir það hvort það séu núna tilefni og tækifæri til að vinda með einhverju móti ofan af þessari raforkutilskipun. Við gætum með einhverjum hætti dregið okkur út úr henni eða breytt hugsanlega íslenskri lagasetningu þannig að hún samræmdist betur efni tilskipunarinnar, þ.e. í raun og veru að vinda ofan af þeirri ákvörðun sem tekin var á sínum tíma að innleiða hana með miklu kaþólskari hætti en meira að segja hið kaþólska Evrópusamband. Ég tel að við ættum að reyna að kaupa okkur tíma með því. Þess vegna er þessi breytingartillaga fram komin.

Ég mundi gjarnan vilja að málið fengi einhverja efnislega umfjöllun á þann veg og væri fróðlegt að heyra viðhorf nefndarmanna til þess, einkum og sér í lagi hv. formanns atvinnuveganefndar og jafnvel fleiri nefndarmanna eða þingmanna um þetta atriði. Þegar upp er staðið held ég að við séum kannski flest orðin þeirrar skoðunar að það hafi ekki endilega verið heillaspor að innleiða þessa tilskipun. Burt séð frá því hvað hefur gerst í málinu, burt séð frá því að raforkutilskipunin var innleidd á sínum tíma 2003 og burt séð frá því að ekki er búið að finna leiðir til að vinda ofan af henni, þá erum við í þeirri stöðu sem við erum í í dag, málið er hér á þessum stað og ef við erum þeirrar skoðunar að það ætti að leita leiða til að koma okkur út úr þessari raforkutilskipun eða breyta framkvæmd hennar í íslenskri löggjöf með einhverjum hætti þá er spurningin hvort við ættum ekki að reyna að sameinast um að finna einhverjar leiðir í þá veru. Það væri ansi fróðlegt að heyra viðhorf hv. þingmanna til þess.