143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[22:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú kom það fram í máli hv. þingmanns áðan að um það væri mikil óvissa hvort það væri yfir höfuð líklegt að við gætum undið ofan af innleiðingu tilskipunarinnar og þar með breytt þessu umhverfi, það væri mál sem tæki lengri tíma. Nú er ekki lengur það upplegg frá stjórnendum Orkuveitunnar eða eigendanefndinni að fresta þurfi gildistökunni gagnvart fyrirtækinu. Því vil ég spyrja hv. þingmann: Er ekki eðlilegt að við setjum þá Orkuveitu Reykjavíkur núna í sömu stöðu í samkeppni við önnur orkuveitufyrirtæki þannig að þau búi við sömu aðstæður? Ef það er skoðun hv. þingmanns að lögin séu til að skaða þessi fyrirtæki frekar en hitt þá nýtur væntanlega Orkuveita Reykjavíkur ákveðins forskots með það að lögin hafi ekki tekið gildi gagnvart henni.

Ég vil því spyrja þingmanninn beint: Finnst honum eðlilegt að við viðhöldum forskoti Orkuveitu Reykjavíkur gagnvart öðrum orkufyrirtækjum með því að innleiða ekki löggjöfina gagnvart henni? Hefur þetta mál út af fyrir sig einhver áhrif á það ef við færum í þá vinnu — ef um það næðist einhver samstaða sem ég er ekkert endilega að boða að sé, það þarf auðvitað að skoða mjög vandlega. Hefur þetta mál einhver áhrif á það að frekar verði hægt að vinda ofan af innleiðingu tilskipunarinnar í raforkumálum heldur en ef það væri bara samþykkt og við settum öll fyrirtækin við sama borð? Ég næ ekki samhenginu í þessu. Mér finnst þetta hljóma (Forseti hringir.) eins og eitthvert yfirklór yfir það hvernig menn stóðu að málum hjá ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili.