143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[22:57]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég hafði alls ekki orð á því að stjórnarflokkarnir núverandi og einnig þeir sem voru við völd 2003, hinir sömu, væru eitthvað að hlaupa frá ábyrgð sinni. Ég heyrði nákvæmlega hvað hæstv. utanríkisráðherra sagði og er algerlega sammála honum. Spurningin er meira hvort við viljum eitthvað gera með það. Viljum við taka það alvarlega ef menn telja að vinda eigi ofan af þessari tilskipun og alla vega því hvernig hún er innleidd í íslenskan rétt, viljum við þá reyna að taka á því? Er leiðin til þess að fullkomna innleiðingu tilskipunarinnar, því að það er það sem verið er að gera? Það er verið að fullkomna innleiðingu tilskipunarinnar með því að láta hana ná einnig frá og með þessum áramótum til Orkuveitu Reykjavíkur.

Það sem ég er að segja er að ég tel að ef menn eru komnir á þann stað að þeir telji að frekar eigi að reyna að vinda ofan af tilskipuninni, eða a.m.k. að breyta framkvæmdinni að einhverju leyti, sé ekki rétta leiðin að fullkomna verkið með þessum lögum heldur betra að taka hina pólitísku ákvörðun, ef það er kominn einhver pólitískur „konsensus“ eða meiri hluti fyrir því að gera það er sú leið betri. Ég er ekkert endilega að halda því fram að mín skoðun sé sú eina rétta í málinu, ég held því mjög sjaldan fram í pólitískri umræðu en ég hef samt það viðhorf að ég teldi þetta betra og spyr hvort það sé flötur á að leita leiða til þess.

Varðandi jafnræðisreglu stjórnsýslulaga sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson gat líka um verð ég að viðurkenna að ég er ekki löglærður maður og get ekki fullyrt neitt um það. Mér finnst hins vegar afar líklegt ...

(Forseti (SilG): Forseti vill benda á að klukkan er ekki rétt þannig að ræðutíma er að ljúka.)

Ætlar forseti að gera eitthvað í þeim efnum eða hafa klukkuna vitlausa það sem eftir lifir kvölds?

(Forseti (SilG): Forseti vill benda hv. þingmanni á að ræðutími hans fer að styttast og það er verið að laga klukkuna.)

Þá skal ég reyna að stytta mál mitt, frú forseti.

Varðandi jafnræðisregluna vil ég segja að mér finnst afar líklegt að ef einhverjar líkur eru á því að þessi skipan mála standist hana ekki hefði verið látið á það reyna og mér vitanlega hefur það ekki verið gert. Ég dreg af því ákveðna ályktun en eins og ég segi er ég ekki löglærður maður og get ekki fullyrt um það — klukkan, virðulegur forseti, gengur hér upp þannig að ég sé að ég á mikinn tíma eftir — hvað er rétt og hvað er rangt í þessu, en mér þykir líklegt að það hefði verið látið á það reyna.