143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[23:00]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég gleðst yfir þeim tíma sem ég sé hérna. Ég get upplýst hv. þingmann um að önnur orkufyrirtæki hafa komið þeim sjónarmiðum á framfæri, gerðu það m.a. í umfjöllun þessa máls, að þau teldu óeðlilegt að Orkuveita Reykjavíkur væri eina orkufyrirtækið á Íslandi sem ekki hefði þurft að sæta því að vera skipt upp, ef við getum orðað það þannig. Í mínum huga eru þetta tvö aðskilin mál, þ.e. annars vegar að uppfylla þessa Evróputilskipun eins gagnvart öllum hlutaðeigandi og hins vegar sú spurning hvort hægt sé að vinda ofan af tilskipuninni yfir höfuð, sem við hljótum þá að gera en við vitum í fyrsta lagi ekki hvort það sé gerlegt og í öðru lagi ekki hvaða tíma það tekur. Þá er spurningin: Er eðlilegt að þetta ágæta fyrirtæki, Orkuveita Reykjavíkur, sitji eitt að því borði að vera ein skipulagsheild meðan aðrir hafa þurft að skipta sér upp og er rétt að halda þeirri vegferð áfram inn í óræða framtíð sem við vitum ekki hversu löng er?

Mér fannst ég heldur ekki fá svar við því hvað kom í veg fyrir það, ef þetta var mikil sannfæring manna á síðasta kjörtímabili, að þeir leituðu leiða til að vinda ofan af þessari Evróputilskipun. Mér þætti vænt um að fá svör þingmannsins við því hvort sérstakar ástæður voru fyrir því að menn lögðu ekki út í þá vegferð eða í þann slag.