143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[23:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta mikið en það eru samt ákveðin atriði sem ég tel mikilvægt að komi fram við þessa umræðu.

Við umfjöllun um þetta mál á síðasta kjörtímabili kom skýrt fram, bæði í umsögnum og á fundum nefndarinnar, frá fulltrúum annarra orkufyrirtækja að þau teldu að þau sætu ekki við sama borð í samkeppnisstöðu gagnvart Orkuveitunni og lögðu mikla áherslu á að gildistakan yrði látin virka gagnvart Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta var alveg skýrt. Nefndin féllst á það vegna erfiðra aðstæðna Orkuveitu Reykjavíkur að fresta gildistökunni. Miklar áhyggjur voru, eins og ég kom inn á áðan, um fjárhagsstöðu Orkuveitunnar. Við vitum af því, það hefur verið í fjölmiðlum, komið ítrekað fram. Aftur á móti hefur nú við meðferð málsins komið fram bæði hjá stjórnendum Orkuveitunnar og eigendanefndinni að þær áhyggjur eru ekki lengur til staðar.

Ég teldi það því mikinn ábyrgðarhluta við þessar aðstæður að láta ekki þessa tilskipun gilda einnig fyrir stærsta fyrirtækið á þessum markaði. Ég tel það reyndar ábyrgð okkar að gæta þess að öll fyrirtæki sitji við sama borð í þeirri samkeppni sem á að vera á þessum markaði.

Ég kom líka inn á það hér áðan að ég hef ekki séð neina formlega úttekt um að þetta hafi valdið hækkunum á raforkuverði. Ég minnist þess að hafa séð í skýrslu frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að þeir teldu þessa samkeppni vera til bóta fyrir neytendur. Eftir stendur sú staðreynd að neytendur hér á landi, hinn almenni neytandi hvort sem eru heimili eða fyrirtæki, borga eitt lægsta orkuverð sem sögur fara af, sennilega það lægsta miðað við öll þau lönd sem við miðum okkur við.

Ég held því að upphlaup Vinstri grænna í þessu máli núna sé á misskilningi byggt í versta falli. Ég held að við hljótum að vilja sameinast um það að þessi fyrirtæki sitji við sama borð. Það er síðan allt annað mál að fara út í mögulegar stærðir og breytingar á þessu máli. Þá mundi það auðvitað gilda gagnvart öllum fyrirtækjum á jafnréttisgrundvelli ef og þegar það tæki gildi.