143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[23:11]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega talsverð aðgerð að skipta upp fyrirtæki eins og Orkuveitu Reykjavíkur. Ég segi bara að ef menn hafa einhverjar efasemdir um lagagrundvöllinn er lýtur að innleiðingunni á raforkutilskipuninni þá finnst mér að staldra eigi við. Okkar tillaga gengur út á að gefa þessu lengri tíma. Ég er reyndar þeirrar skoðunar, ég ætla að leyfa mér að segja það, að í því felist meiri þrýstingur á að fara í endurskoðun á fyrirkomulaginu og flytja þess vegna önnur fyrirtæki í átt að því fyrirkomulagi sem er og hefur verið hjá Orkuveitu Reykjavíkur frekar en hitt. Ég tel að ef þetta verk er einhvern veginn fullkomnað, innleiðingin með þessum hætti, hverfi allur hvati til að fara í endurskoðun á þessu kerfi og koma öllum í sama umhverfi.

Ég er vissulega sammála því að að sjálfsögðu á að ganga út frá sama umhverfi. Það hefur ekki verið um eitthvert skeið. Við viljum heldur beita okkur fyrir því að það verði þrýstingur á að fara í hina áttina en að fullkomna þessa innleiðingu með þeim hætti sem hefur verið gert. Við teljum að það þjóni líka hagsmunum almennings í landinu. Þegar upp er staðið finnst mér að þeir hagsmunir verði að ráða ferðinni en ekki einhver formsatriði að því er varðar hvernig þessi tilskipun er innleidd.