143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

flutningur verkefna frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsembætta.

161. mál
[23:15]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna flutnings verkefna frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsembætta og annarra embætta og stofnana.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín ýmsa gesti og nokkrar umsagnir. Það voru nokkur atriði sem komu sérstaklega til skoðunar hjá nefndinni. Markmiðið með þeim áformum um að flytja verkefni er að auka samlegð og hraða í málsmeðferð með því að fela stofnunum, sem ýmist hafa þekkingu á viðkomandi verkefnum eða sinna sambærilegum verkefnum, afgreiðslu þeirra. Þetta er gott markmið. Það er gott að vita til þess að vilji sé til þess, sem birtist jafnframt í verki, að flytja verkefni til þessara stofnana.

Eftir sem áður mun innanríkisráðuneytið fara með yfirstjórn þeirra málaflokka sem frumvarpið nær til auk þess sem með þeirri breytingu að fela undirstofnunum ráðuneytisins ákveðin verkefni verða upphaflegar stjórnvaldsákvarðanir vegna þeirra teknar af lægra settu stjórnvaldi og því kæranlegar til ráðuneytisins. Þetta er eitthvað sem er mjög mikilvægt vegna þess að þetta er í samræmi við meginreglu 26. gr. stjórnsýslulaga. Við viljum auðvitað líta til þess að auka réttarvernd borgaranna. Þess vegna er markmið og tilgangur þessa lagafrumvarps mjög jákvætt.

Við leggjum fram þrjár breytingartillögur. Í fyrsta lagi er aðeins um tæknilega breytingu að ræða þar sem misritun var í frumvarpstextanum og við leggjum því til að það verði lagfært með því að: Í stað „1. mgr.“ í inngangsmálslið 3. gr. komi: 2. mgr.

Við fengum athugasemdir frá Lögmannafélaginu vegna þess að í VI. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um lögmenn, nr. 77/1998. Þar er lagt til að ákveðin verkefni verði færð frá innanríkisráðuneytinu til sýslumanna. Það er 20. gr. sem við erum að skoða hér. Það stendur sem sagt til að færa einu sýslumannsembætti þau verkefni til einföldunar, þ.e. að ráðherra verði heimilt að færa verkefnin til eins sýslumannsembættis. En í nefndinni komu fram athugasemdir um að það væri ekki til þess fallið að auka réttarvernd borgaranna, það var afstaða Lögmannafélagsins. Félagið telur að það geti verið varasamt fyrir réttaröryggi borgaranna að lögmaður geti haldið réttindum sínum virkum þrátt fyrir ákvörðun sýslumanns um niðurfellingu þeirra á meðan mál er í kæruferli hjá ráðuneytinu.

Við ræddum þetta talsvert og komumst að þeirri niðurstöðu að það sé einmitt til þess fallið að auka réttaröryggi borgaranna, jafnt almennings sem lögmanna, að hægt sé að fjalla um þessi mál á tveim stjórnsýslustigum líkt og meginreglan í stjórnsýslulögum kveður á um. Það er auðvitað þannig að þegar sýslumaður hefur tekið ákvörðun um niðurfellingu lögmannsréttinda er það gert á ákveðnum grundvelli. Það er ákveðið ferli að því að sýslumaður fer í slíkar aðgerðir. Það fer í nefnd sem er skipuð samkvæmt lögum um lögmenn, við erum ekki að breyta því ferli, það er eingöngu verið að færa framkvæmdina sem slíka til ákveðins sýslumannsembættis. Það er auðvitað bindandi ákvörðun sem sýslumaður tekur. Hún er bindandi fyrir þann sem ákvörðuninni er beint að. Það stjórnvald sem tók ákvörðunina mun náttúrlega birta þá ákvörðun aðila máls. Réttaráhrifin munu koma strax fram eftir birtinguna og kæra til æðra stjórnvalds, eins og meginreglan er, mun ekki fresta réttaráhrifum ákvörðunar. Þetta er ein af meginreglunum í stjórnsýslulögunum. Þess vegna er það okkar niðurstaða að leggja til að þetta verði óbreytt.

Hins vegar hefur nefndinni borist viðbótarumsögn við þennan lið og þetta ákvæði frumvarpsins. Því mun ég kalla þetta mál til nefndar að nýju á milli umræðna og fara yfir þá umsögn til að skoða málið nægilega vel. Þegar greidd hafa verið atkvæði um málið eftir þessa umræðu mun nefndin funda að nýju og fara yfir þetta og skoða málið aftur.

Þá er í 11. gr. frumvarpsins lögð til breyting á barnalögum. Lögð er til sú tillaga að úrskurðir sýslumanna vegna sérstakra útgjalda samkvæmt 60. gr. barnalaga, nr. 70/2003, verði endanlegir innan stjórnsýslunnar og ekki kæranlegir til ráðherra. Hér er um að ræða útgjöld vegna skírnar barns, fermingar, gleraugnakaupa, tannréttinga, sjúkdóms, greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni.

Í nefndinni kom fram að í ráðuneytinu hafi nýverið verið kveðnir upp úrskurðir sem hafi breytt eldri réttarframkvæmd nokkuð þannig að nú er meira tillit tekið til fjárhags aðila. Í þeim tilfellum getur verið um töluverðar fjárhæðir að ræða, t.d. er varðar tannréttingar. Þær eru dýrar, eða oft og tíðum dýrar framkvæmdir, þ.e. dýr þjónusta. Og þar sem um töluverða fjárhagslega hagsmuni er að ræða teljum við í nefndinni rétt að hægt verði áfram að kæra ákvarðanir sýslumanna á grundvelli 60. gr. barnalaga til ráðuneytisins og leggjum því til breytingu á frumvarpinu í þá veru, þ.e. að III. kafli falli brott.

Að síðustu fjölluðum við talsvert um miðlæga rafræna málaskrá. Við leggjum þar til ákveðna breytingu. Ætlunin var samkvæmt frumvarpinu að sú framkvæmd tæki gildi frá 1. apríl, en við leggjum til þá breytingu að 2.–4. mgr. 24. gr. taki gildi 1. júní 2014. Það er vegna þess að Þjóðskrá Íslands er ætlað að halda utan um miðlæga málaskrá og verður skrá yfir lögræðissvipta einstaklinga, um lögráðamenn og ráðsmenn hluti af þeirri málaskrá. Ósk kom fram frá stofnuninni um lengri undirbúningstíma. Við viljum auðvitað að hægt sé að framkvæma lögin frá þeim tíma sem þeim er ætlað að taka gildi. Þess vegna leggjum við til þessa breytingu.

Frú forseti. Það er rétt að vekja athygli á umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins þar sem kemur fram að verði frumvarpið lögfest óbreytt verði ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Hins vegar mun koma til millifærslna fjárheimilda á milli stofnana. Gert er ráð fyrir að eitt eða tvö stöðugildi flytji til Útlendingastofnunar vegna afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt. Önnur verkefni og tilflutningur verkefna eru það viðalítil að þó að þeim hafi verið sinnt um árabil liggur ekki fyrir af hálfu ráðuneytisins á þessu stigi hversu miklar fjárveitingar þarf að flytja milli aðila. Þess vegna mun einfaldlega reyna á það þegar framkvæmdinni hefur verið breytt og verkefnin komin til framkvæmda á nýjum stað. Því er ekki gert ráð fyrir neinum millifærslum milli viðkomandi stofnana að sinni.

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan óska ég eftir því að málið gangi eftir atkvæðagreiðslu til nefndar að nýju.