143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

frumvarp um fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta.

[10:35]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina.

Eins og mér hefur skilist af samtölum við formann allsherjar- og menntamálanefndar telur nefndin rétt að fara eilítið betur yfir efnisatriði málsins. Í ljósi þess að pressan á að klára málið fyrir þinghlé er fyrst og fremst gagnvart fjármögnuninni varðandi kostnaðinn er búið að ganga frá því að gerðar verða ákveðnar breytingar í tengslum við bandorminn. Þegar er búið að taka kostnaðinn inn í fjárlögin þannig að í rauninni er ekkert sem segir að það þurfi endilega að klára þetta fyrir áramótin. Nefndin hefur í hyggju að klára þetta sem allra fyrst eftir áramót þegar við komum aftur saman.

Ég hef þegar talað við umboðsmann skuldara um að hann getur hafið undirbúning strax að því að bjóða þessa þjónustu, þar sem búið er að tryggja fjármögnunina, og hafa þá hugsanlega samband við þá einstaklinga sem þegar hafa leitað til umboðsmanns skuldara sem þetta úrræði gæti hentað þótt ekki sé búið að ganga frá lagasetningunni.