143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

kjarasamningar og skattbreytingar.

[10:46]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja máls á því að nú liggur fyrir að verkalýðshreyfingin kom að málum við að greiða fyrir því að hægt væri að greiða út desemberuppbót til atvinnulausra. Hún féllst á að framlög í Starfsendurhæfingarsjóð yrðu lækkuð um 240 milljónir og að það fé færi í staðinn í Atvinnuleysistryggingasjóð til þess að gera það kleift að greiða desemberuppbótina, en jafnframt að tilfærslur yrðu milli bóta- og rekstrarliða hjá Vinnumálastofnun á næsta ári til þess að hægt væri að sinna þjónustu við atvinnulausra til að koma í veg fyrir að við stöndum frammi fyrir miklu nýgengi örorku og alvarlegum vandræðum á vinnumarkaði. Ég vildi gjarnan fá staðfestingu hæstv. fjármálaráðherra á því að þetta sé efnisinntak samkomulagsins sem náðst hefur.

Ég vildi að öðru leyti færa í tal það framlag sem ríkisstjórnin gæti lagt fram í kjaraviðræður sem nú standa yfir og eru á viðkvæmu stigi. Ég hef áhyggjur af því með hvaða hætti útspil ríkisstjórnarinnar varðandi 0,8% lækkun á tekjuskatti í millitekjuþrepi hefur á kjaraviðræðurnar að öðru leyti. Sú lækkun mun skila manni með 300.000 kr. 500 kr. á mánuði, en manni með 750.000 4.200 á mánuði. Ég óttast að það útspil muni hafa neikvæð áhrif á kjaraviðræðurnar.

Ég vil þess vegna líka beina fyrirspurn til fjármálaráðherra um hvort hann sé til viðræðu um að haga skattbreytingum á meðaltekjuhópa þeim með þeim hætti að það geti betur samrýmst hagsmunum aðila vinnumarkaðarins á þessari stundu, sem ég held að við séum öll sammála um að sé mikilvægt markmið, þannig að útspil ríkisstjórnarinnar, 5 milljarðar í lækkun á (Forseti hringir.) skatta á meðaltekjuhópa, geti orðið til þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga.