143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

kjarasamningar og skattbreytingar.

[10:51]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla vissulega að hrósa hæstv. ráðherra fyrir að hafa fundið fé til þess að láta koma til framkvæmda þær ákvarðanir sem við höfðum tekið fyrir löngu síðan um að skerðingum á lífeyrisþega yrði hætt í lok þessa árs, það er hrósvert og ánægjuefni. Hæstv. ráðherra gleymdi nú að nefna eitt sem hefur áreiðanlega líka hjálpað til við kjarasamningavinnuna núna, það er sú ákvörðun sem ríkisstjórnin tók eftir samninga við stjórnarandstöðuna um að falla frá sérstökum álögum á sjúklinga.

Ég ítreka hvatningu mína til hæstv. fjármálaráðherra um að hugsa upp á nýtt útfærsluna á þessum 5 milljörðum. Hann er auðvitað með óvenjulega stóra smurolíukönnu í höndunum akkúrat núna til þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga. Hann er með fjárveitingu upp á 5 milljarða í meðaltekjufólk. Er ekki hægt að finna heppilega útfærslu þarna sem getur orðið til þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga? Það væri dapurlegt að láta þetta tækifæri fram hjá sér fara (Forseti hringir.) og auka enn á launamun með útfærslu á þessari skattalækkun.