143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

skattar á fjármálafyrirtæki.

[10:53]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í skatt á fjármálafyrirtæki. Ég vil hins vegar byrja á því að gagnrýna það að endanleg skattprósenta er ekki komin til meðferðar þingsins. Við greiðum atkvæði um það frumvarp eftir 2. umr. á eftir. Mér finnst því mjög óvenjulegt að koma með róttæka breytingu á skatthlutfallinu á milli 2. og 3. umr. Mér hefði fundist mega vera annar bragur á þeirri vinnu allri saman.

Mig langar að spyrja út í bankaskattinn vegna þess að það stendur til að fjármagna skuldaleiðréttingar með 20 milljörðum á ári næstu fjögur árin af þessum skattstofni. Í greinargerð frumvarps sem lýtur m.a. að skatti á fjármálafyrirtæki stendur, með leyfi forseta:

„Hér er gengið út frá þeirri forsendu að í lok 2015 verði slitameðferð föllnu bankanna að fullu lokið.“

Þetta þýðir að skattstofninn fjarar eiginlega út og samkvæmt greinargerð með frumvarpinu verða engir 20 milljarðar í lok árs 2015. Ríkisstjórnin er búin að boða að hún ætli að fá úr þessum skattstofni 20 milljarða á ári í fjögur ár en í greinargerð frumvarpsins er sagt að aðgerðin skili einungis þessum tekjum í tvö ár. Ég verð að játa að ég skil þetta ekki. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra einfaldlega vegna þess að ég skil þetta ekki: Hvernig á að fjármagna helminginn af boðuðum skuldaleiðréttingum ef bú bankanna verða gerð upp 2015 og þessi skattstofn er ekki lengur fyrir hendi? Hvað gerist þá?