143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

framlög til hjúkrunarheimila.

[11:03]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi málið sem hér er rætt er það vissulega rétt að umræða um of lág daggjöld hafa verið lengi við lýði. Eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi er þetta 20 ára saga sem hann þekkir mætavel og vann meðal annars á síðasta kjörtímabili með þau mál og gerði það eins vel og honum einum var lagið.

Það mál sem hér er um að ræða, þ.e. rekstrarvandi Sunnuhlíðar, liggur fyrir að því leytinu til að við erum að vinna í heilbrigðisráðuneytinu með velferðarráðuneytinu, með stjórn Sunnuhlíðarsamtakanna að því að greiða úr þeim efnum. Forgangsverkefni í þeim þætti málsins er sá að engin röskun verði á högum þeirra vistmanna sem þar eru. Skuldahliðin og óuppgerð mál frá fyrri tíð, hátt í 300 millj. kr., eru annað verkefni sem við erum ekki komi í enn, en þess má vænta að það komi sameiginleg yfirlýsing frá okkur síðar í dag um það hvernig við hyggjumst taka á því.

Varðandi daggjöldin almennt krefst það miklu grundaðri vinnu en þeirrar að hægt sé að slengja fram hér korteri fyrir jól tillögu um aukningu daggjalda. Hjúkrunarheimili, öldrunarheimili landsins eru misjafnlega rekin. Ég veit dæmi um hjúkrunarheimili sem skila afgangi meðan önnur eru í bullandi vandræðum. Þau eru misjöfn mannanna verkin og þess krafist ef við ætlum að fara inn á einum stað að við séum í þeim efnum að horfa til allra öldrunarheimila landsins. Það hyggst ég gera og er að vinna núna að heildarúttekt á þeirri stöðu og vænti þess að fá einhverja niðurstöðu til þess að taka ábyrgari skref um mitt ár.