143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[11:27]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni leggjum til fjölmargar breytingartillögur sem allar hafa það að markmiði að finna sanngjarnari útfærslu á hugmyndum ríkisstjórnarinnar um lækkun skatta á meðaltekjur. Sú útfærsla yrði líka til þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga og væri skynsamlegri og sanngjarnari að öllu leyti.

Við leggjum líka til breytingartillögur til þess að auka tekjur okkar af sameiginlegum auðlindum og munum standa við þær tillögur þó svo að við metum auðvitað mikils að hafa fengið ríkisstjórnina að samningaborðinu á nýju ári um stefnumörkun og aðgerðir til þess að setja gjald á nýjar tegundir í íslenskri lögsögu.

Við munum síðan styðja einstakar aðrar tillögur eftir því sem þær falla að okkar áherslum.