143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[11:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Í þessari nýju 5. gr. sem við leggjum hér til eru stafliðir a og b óbreyttir frá frumvarpinu en við bætist stafliður c sem felur í sér að virðisaukaskattur á útleigu hótel- og gistiherbergja og annarrar gistiþjónustu færist úr 7 í 14% 1. mars næstkomandi. Þetta mundi tryggja ríkinu um 1.800 millj. kr. tekjur á næsta ári og vel yfir 2 milljarða á ársgrundvelli, jafnvel enn meira ef tekið er mið af örum vexti ferðaþjónustunnar þessi missirin. Þarna er enn ein ráðstöfun á ferðinni til að verja ríkið því tekjufalli sem annars leiðir af misráðnum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar. Vöxtur og viðgangur ferðaþjónustunnar er mikill. Hún nýtur góðs af hagstæðu gengi og mikilli kynningu Íslands og flestir eru sammála um að samkeppnisstaða hennar bjóði upp á a.m.k. þessa skattahækkun, ef ekki meira, og eðlilegt að hún leggi sitt af mörkum til þjóðarbúsins á erfiðum tímum.