143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við greiðum nú atkvæði um fjáraukalög fyrir árið 2013, þ.e. yfirstandandi ár. Ferillinn er sá að fyrst eru samþykkt fjárlög og síðan fjáraukalög og síðan kemur ríkisreikningur. Á árunum 2009, 2010 og 2011 var ríkisreikningur 101 milljarði umfram fjárlög og fjáraukalög, þ.e. stjórnsýslan fór 101 milljarði umfram heimildir, sem eru samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum og samkvæmt stjórnarskrá. (SJS: Hvað var hann mikið umfram 2008?) Þess vegna er svo mikilvægt — ég vil hafa frið fyrir hv. frammíkallanda — að menn sýni aga í framkvæmd fjárlaga og fjáraukalaga. Ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að auka þann aga þannig að fjárlög standist nokkurn veginn nema það sem er óvænt og sérstaklega að ríkisreikningur sé nákvæmlega í flútti við og í samræmi við fjáraukalög.