143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að sjá þessa niðurstöðu. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá að menn höfnuðu tillögu sem ég ætla að lesa hér beint en hún hljómar svo, með leyfi forseta:

„Að leigja húsnæði í Perlunni í Reykjavík af Reykjavíkurborg fyrir Náttúruminjasafn Íslands í samræmi við leigusamning sem undirritaður var hinn 13. mars 2013.“

Hann var undirritaður og gefur engan sveigjanleika fyrir hæstv. menntamálaráðherra. Ríkiskaup komu ekki að þessu, þeim var haldið frá þessu einhverra hluta vegna. Leigusamningurinn gengur upp á verðtryggðar greiðslur upp á 83 milljónir á ári í 15 ár, óuppsegjanlegt hvorki meira né minna. Og 500 milljónir af svokallaðri fjárfestingaráætlun áttu að fara í uppsetningu á safninu. Rekstrarkostnaður áætlaður 130 milljónir á ári.

Svo leyfa menn sér að koma hingað upp og tala um hlutina á þann veg að hér sé eitthvað annað á ferðinni en skelfilegur samningur fyrir skattgreiðendur og er illa farið með allar staðreyndir málsins eins og sumir hv. þingmenn gerðu hér. Hvet ég hv. þingmenn til að lesa fyrst og tala svo.