143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[12:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er lagt til að frestað verði uppskiptingu Orkuveitu Reykjavíkur í tvö ár. Vegna innleiðingar á raforkutilskipun hefur þetta lengi legið fyrir. Við teljum að nota eigi þann tíma sem við leggjum hér til til að skoða möguleika á að endurskoða innleiðingu á raforkutilskipuninni. Við teljum ekki raunverulegan samkeppnismarkað hér á landi. Þó að önnur orkufyrirtæki hafi innleitt þessa uppskiptingu teljum við að það eigi að gefa því lengri tíma og skoða hvort með einhverjum hætti sé hægt að endurskoða þá innleiðingu sem ég held að flestir sjái í dag að hafi ekki verið rétt skref að stíga. Reynslan hefur sýnt það.