143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

veiting ríkisborgararéttar.

245. mál
[12:49]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil bara vekja athygli þingheims á því að hér er um mjög afdrifaríka stefnubreytingu að ræða, að því er mér sýnist. Á undanförnum árum hef ég tekið þátt í störfum bæði hv. allsherjarnefndar og þeirrar nefndar sem lagt hefur fram tillögu um veitingu íslensks ríkisborgararéttar. Undanfarin fjögur ár að minnsta kosti hafa á bilinu 90–95% þeirra sem sótt hafa um fengið ríkisborgararétt. Það er að mínu mati mjög jákvætt ákvæði í lögunum að geta haft tök á því að mæta hinu mannlega, mæta óvenjulegum aðstæðum í lífi fólks. Hér fá 19 einstaklingar ríkisborgararétt af 56 sem sækja um. Það er greinilega mikil stefnubreyting á ferðinni.

Ég vil bara segja um málefni flóttamannanna frá Írak að þar er um að ræða ráðstöfun í mannúðarskyni. Þar er um að ræða hóp fólks sem við bjóðum til landsins vegna neyðar sem upp er komin. Hluti þeirra fær nú ríkisborgararétt og ég geri athugasemd við að hópurinn skuli ekki í heild sinni fá ríkisborgararétt. Mér skilst samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið að það sé vegna tungumálakunnáttu. Þess vegna spurði ég sérstaklega út í hvaða ástæður lægju þar að baki. Mér er líka kunnugt um að tveir einstaklingar í þessum hópi hafi fengið sektir fyrir hraðakstur, en það er búið að greiða þær sektir. Í mínum huga er það ekki nægileg ástæða til að þeir séu ekki á þessum lista. Ég bið nefndina um að endurskoða þetta. (BirgJ: Heyr, heyr.)