143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

6. mál
[12:52]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um leikskóla að loknu fæðingarorlofi, frá allsherjar- og menntamálanefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ernu Reynisdóttur og Þóru Jónsdóttur frá Barnaheillum, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ídu Jensdóttur frá Samtökum sjálfstæðra skóla, Jóhönnu Einarsdóttur og Örnu H. Jónsdóttur frá menntavísindasviði Háskóla Íslands og Ingibjörgu Kristleifsdóttur frá Kennarasambandi Íslands og Félagi leikskólakennara.

Umsagnir bárust frá Barnaheillum, menntavísindasviði Háskóla Íslands, Hveragerðisbæ, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum sjálfstæðra skóla og Samtökum verslunar og þjónustu.

Í þingsályktunartillögunni er lagt til að ráðherra verði falið að skipa nefnd með þátttöku sveitarfélaganna, sérfræðinga, hagsmunaaðila og stjórnmálaflokka sem geri tillögu að áætlun um hvernig sveitarfélögin standi að því að bjóða leikskólaúrræði strax og fæðingarorlofi lýkur. Tillagan lýtur að samþættingu og samhæfingu þjónustu við barnafjölskyldur.

Álit nefndarinnar er að mikilvægt sé að koma á fót samráðsvettvangi sem meti kosti þess að bjóða leikskólavist strax og fæðingarorlofi lýkur. Ljóst er að þetta úrræði getur orðið kostnaðarsamt fyrir sveitarfélögin ef af verður og er það mat nefndarinnar að mikilvægt sé að sveitarfélögin komi að allri umræðu um málið frá upphafi. Leggur nefndin til breytingu á tillögunni þess efnis. Jafnframt telur nefndin brýnt að við skipun samráðshópsins verði horft til þeirra sem hafa sérfræðiþekkingu og reynslu í málaflokknum.

Fram kom í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga að nauðsynlegt væri að greina fagleg og fjárhagsleg sjónarmið að baki tillögunni og tekur nefndin undir það. Einnig kom fram á fundum nefndarinnar vilji til þess að hefja umræður um þessi mál. Nefndin telur einsýnt að verkefnið sé umfangsmikið og verði ekki unnið á þeim stutta tíma sem lagt er til í tillögunni.

Nefndin leggur því til að starfshópurinn skili tillögum til ráðherra fyrir 1. september 2014.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu. Með leyfi forseta, orðast tillögugreinin svo:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga að skipa starfshóp til að meta kosti þess að bjóða leikskólavist strax og fæðingarorlofi lýkur. Starfshópurinn greini faglegar kröfur og fjárhagsleg sjónarmið sem taka þarf tillit til, þar á meðal varðandi mannafla- og húsnæðisþörf leikskóla miðað við áætlaða fjölgun leikskólabarna á aldrinum eins til tveggja ára, ásamt leiðum til fjármögnunar. Hópurinn kalli hagsmuna- og fagaðila til samráðs eftir því sem við á. Starfshópurinn skili tillögum til ráðherra fyrir 1. september 2014.“

Undir þetta skrifa hv. nefndarmenn í allsherjar- og menntamálanefnd, það eru hv. þingmenn Unnur Brá Konráðsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Páll Valur Björnsson, Katrín Júlíusdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Árnason.

Hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.