143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

6. mál
[12:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér ræðum við afskaplega merkilega tillögu til þingsályktunar, sem hefur batnað mikið í meðförum nefndarinnar, en hún fjallar um það hvernig við búum nýja borgara undir lífið þegar fæðingarorlofi lýkur við níu mánaða aldur. Mér finnst vanta í þessa tillögu, það er eins og nefndinni hafi ekki verið kunnugt um í gildi eru lög um foreldraorlof, fyrir utan fæðingarorlof. Það er heimild foreldra til þess að taka ólaunað leyfi frá vinnu eftir að fæðingarorlofi lýkur. Mér finnst að það þurfi að taka það með inn í dæmið. Ég hafði nú ekki rænu á því að koma með breytingartillögu við þessa tillögu, það er sennilega orðið of seint, en ég hefði viljað segja „eftir að fæðingarorlofi og foreldraorlofi lýkur“. Jafnframt að talað hefði verið um heimgreiðslur, því sveitarfélögin borga 180 þús. kr. á hverjum mánuði með barni á fyrsta ári. Þau eru mjög dýr í vistun.

Ef menn tengja saman heimgreiðslur, fæðingarorlof og foreldraorlof og foreldrarnir verða á vöktum, vinna hálfan daginn hvor eða eitthvað slíkt, er hægt að lengja þennan tíma mikið þannig að barnið geti verið, ef foreldrarnir vilja, allt að tvö ár heima með því að nýta foreldraorlof, fæðingarorlof og þessar beingreiðslur eða heimgreiðslur sveitarfélagsins. Þær geta að sjálfsögðu verið skattfrjálsar þar sem þær eru skattfrjálsar í dag, þessar 180 þús. kr. sem sveitarfélagið borgar.

Ég vil spyrja hv. framsögumann sem flutti hér ágæta ræðu, Elsu Láru Arnardóttur, hvort þetta sjónarmið með foreldraorlofið hafi verið skoðað í nefndinni og eins að það er um að ræða heimgreiðslur frá sveitarfélaginu.