143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

177. mál
[13:25]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu á þskj. 411. Sjóðfélagar eru skyldaðir lögum samkvæmt til að setja peninga sína í lífeyrissjóði og geta í flestum tilfellum ekki einu sinni kosið stjórn þessara sjóða og tryggt þannig með lýðræðislegum hætti að þeir sem fara með fé þeirra séu háðir hagsmunum þeirra. Þessi tillaga miðar að því að það sé alla vega gegnsæi í ákvörðunum þegar kemur að fjárfestingum sjóðanna og þær séu aðgengilegar sjóðfélögum. Ég geri ekki ráð fyrir að tillagan verði samþykkt núna, en þetta er tilraun til að skjóta ákvæði inn í lagafrumvarp stjórnarinnar. Maður er að athuga þau verkfæri sem eru í boði. Þegar fram í sækir munum við leggja fram heildstætt frumvarp sem mun byggja á frumvarpi hv. þm. Péturs H. Blöndals um að sjóðstjórnir séu kjörnar beint af sjóðfélögum annars vegar og hins vegar að sjóðfélagar eigi að sjálfsögðu rétt á því að hafa aðgang að upplýsingum um það hvernig er verið að verja, fjárfesta fé þeirra.