143. löggjafarþing — 43. fundur,  19. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[19:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og tek undir mjög margt hjá honum; frumvarpið hefur batnað, sérstaklega í ljósi þess samkomulags sem gert var. Þar höfðu menn tekið inn mörg góð mál, reyndar sleppt fjöldamörgum öðrum góðum málum sem við hefðum kannski alveg eins viljað sjá þarna inni eins og þróunarhjálp og annað slíkt. Allt kostar þetta. Það sem menn höfðu að leiðarljósi var að halda fjárlögunum í plús.

Af hverju vildu menn það? Það er vegna þess að við Íslendingar erum að borga 75 milljarða, eins og kunnugt er, í vexti, sem er eitt stykki sjúkrahús, á hverju einasta ári, 200 milljónir á dag. Það vill svo til að mörg af þessum góðu verkefnum voru nokkurn veginn sú tala — vextir Íslendinga á dag. Ef við spyrnum ekki við fótum í þessari þróun mun enginn borga það nema börnin okkar.

Svo er annað sem ég vildi spyrja hv. þingmann um: Er honum kunnugt um þær kenningar hagfræðinga að halli á ríkissjóði hvetji til verðbólgu, þ.e. búi til verðbólgu? Þá er ég að tala um raunverulegan halla, ekki halla sem menn búa til og fara svo ekkert eftir, heldur þann halla sem kemur fram í ríkisreikningi.