143. löggjafarþing — 43. fundur,  19. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[19:17]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég get nú tekið undir nánast allt það sem kom fram í ræðu hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar og mjög margt af því sem kom fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Það er svo sem ekki miklu við það að bæta nema mig langaði að vekja athygli á því og ítreka hve mikilvægt er að styðja við innviði sem skapa tekjur. Við erum land sem ekki er eingöngu keyrt áfram af stórfyrirtækjum, heldur eru flest fyrirtækin okkar lítil og meðalstór. Ég hef töluvert miklar áhyggjur af því sem hefur komið fram í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar varðandi skuldaniðurfellinguna og lausnir á fjárhagsvandræðum almennings þegar kemur að húsnæði og spurði að því sérstaklega þegar við fengum kynningu hjá þingflokki Pírata á þessum tillögum ríkisstjórnarinnar.

Ég velti fyrir mér, og það getur vel verið að þetta séu óþarfaáhyggjur hjá mér, að þegar fólk ákveður að nýta sér séreignarsparnað — segjum að það verði margir sem ákveða að gera það — hvort fyrirtækin muni geta borið þessi auka 2% sem þau eiga að leggja fram. Mig vantar skýrari svör um mjög margt. Mér finnst þau vera pínulítið óljós eins og gjarnan er, og það á ekki bara við um þessa ríkisstjórn heldur ótalmargar ríkisstjórnir þar á undan. Við þurfum að vinna vinnuna okkar á þann veg að við höfum framtíðarsýn, þ.e. að við séum að hugsa lengra en í einstökum kjörtímabilum.

Þetta er að sjálfsögðu ekki eingöngu vandamál hérlendis heldur víðtækt vandamál út um allan heim. Það er ein af ástæðunum fyrir því að við erum að verða búin með plánetuna okkar, eða alla vega mikið af efnum sem verið er að nota í allar þær stórkostlegu nýjungar sem við höfum aðgengi að í heiminum okkar. Því miður hafa þessar nýjungar ekki alltaf verið notaðar af skynsemi því að verið er að nota efni og fólk á mjög skemmandi hátt.

Ég held að besti staðurinn til að móta svona framtíðarsýn sé ekki endilega í einstökum flokkum, heldur í þverpólitísku samstarfi. Ég held að vettvangurinn fyrir slíkt samstarf gæti einmitt orðið í nefnd sem samkomulag var um að setja á fót hér á þinginu til að fara yfir nýsköpun og skapandi greinar o.s.frv. Ég vona að við getum notað þennan vettvang til að hugsa langt og feta okkur síðan til baka til samtímans þaðan, frá þessari sýn. Inn í þessa sýn fléttast að sjálfsögðu meiri ábyrgð þegar kemur að umhverfi okkar og svokölluðum auðlindum, hvernig við förum með það sem við höfum verið svo lánsöm að fá að gæta, sem er náttúran og þær gjafir sem við höfum fundið þar. Það er nú þannig með gjafir að það er alltaf skemmtilegra að geta gefið til baka. Okkar hlutverk er að tryggja að næstu kynslóðir fái eitthvað til baka, sitji ekki eftir á einhverjum ruslahaug okkar neysluvenja.

Það hafa verið að berast fjöldamörg bréf til okkar þingmanna í dag undir átaki frá fólki sem er í háskólum sýnist mér. Mig langaði að lesa þetta bréf. Þetta er fjöldasending. Það er nú oft þannig að þegar þingmenn fá fjöldasendingar hefur maður kannski ekki tíma til að svara öllum, sérstaklega á annatímum eins og nú eru á síðustu dögum þingsins. Mig langaði að þakka fyrir þessi bréf og þessa brýningu. Ég vona að stjórnarþingmenn hlusti vel því að þarna er framtíðin að tala. Ég ætla að lesa eitt af þessum bréfum, með leyfi forseta, það er örstutt:

„Ágæti viðtakandi. Ég er þeirrar skoðunar að íslenskt samfélag þurfi á sterku menntakerfi að halda. Menntun er forsenda fyrir góðu íslensku þjóðfélagi og mikilvægt að hlúa vel að henni. Fjárveitingar hafa verið skornar niður til Háskóla Íslands í sex ár í röð. Nú á að ganga enn lengra og til að standa straum af niðurskurðinum á að seilast í vasa stúdenta með hækkun á skrásetningargjöldum. Jafnframt er ekki greitt með 350 nemendum skólans. Aðeins eitt OECD-land hefur skorið meira niður en Ísland á þessu tímabili. Er það ásættanlegt?“

Nei, ég get svarað því, forseti, það er ekki ásættanlegt og það er ekki hægt. Það er ekki hægt að á sama tíma og gjöld til þess að geta komist í háskólann hækka mikið þá minnki gæði þjónustunnar. Það mundi enginn láta bjóða sér þannig skilmála ef þeir væru að kaupa sér eitthvað.

Áfram heldur bréfið, með leyfi forseta:

„Ég skora á þig, kæri þingmaður, að standa vörð um menntun í landinu, að sjá til þess að fjárfest sé í menntun sem er fjárfesting í mannauði.“

Ég get alveg gengist við þessari áskorun, en ég er bara ein og mig vantar stjórnarliða með í lið. Ég geri mér grein fyrir því, eins og komið hefur fram í ræðum mínum, að mikilvægt sé að gæta aðhalds á ríkisheimilinu þegar kemur að fjármálum. Ég ber virðingu fyrir þeirri viðleitni ríkisstjórnarinnar að reyna að koma út í plús.

Það hafa komið tillögur frá minni hlutanum um að ná í aukatekjur, meðal annars með skattheimtu, með hinu svokallaða gistináttagjaldi, að skattur á það verði hækkaður upp í 14%. Það hafa líka komið tillögur um að bíða með skattalækkun á svokölluðu miðþrepi og ýmislegt annað. Eitt af því sem mér finnst skynsamlegt er að skipting okkar sameiginlega auðs úr hafinu sé réttlátari og svo mætti lengi telja. Það er nefnilega ekki þannig að minni hlutinn sé bara með óskalista, heldur hefur verið komið fram með ýmsar tillögur sem meiri hlutinn hefur því miður algerlega hafnað. Þar af leiðandi eru listarnir sem koma frá okkur, þeir óskalistar sem ég er að tína til hér, bara óskalisti. Það er enginn vilji til að hlusta á mjög uppbyggilegar tillögur að því hvernig við gætum til dæmis haldið andlitinu þegar kemur að þróunarsamvinnu. Það er bara sorglegt, svo sorglegt, að við skulum hafa farið út í þennan harkalega niðurskurð þar.

Ég hefði viljað sjá miklu meiri fórnir á prinsippum um að ekki eigi að hækka þennan skatt eða að það verði að lækka hinn skattinn. Þeir sem eru í ferðamannabransanum — síldin er að koma þar, svo sannarlega. Það er ákveðið að tala um gullæði. Af hverju á það fólk ekki að deila gulltekjunum með þjóðinni? Þessar tekjur koma utan frá, þær koma frá ferðafólki. Síðast var ákveðið að hækka gistináttagjaldið ekki af því að það kæmi of bratt. Af hverju gátum við ekki gert þetta núna og kynnt það til leiks þegar þessi ríkisstjórn tók við, og bara skrifað það inn í fjáröflun stofnana að fyrirvarinn væri þannig að það kæmi ekki illa við þá sem eru að bjóða upp á þá þjónustu sem hægt hefði verið að hækka þennan skatt á?

Ég er eiginlega meira hrygg en glöð yfir þessum fjárlögum, það verður bara að segjast eins og er. Ég vissi alveg að við mundum ná í gegn, vissi það alveg frá degi eitt, maður þarf ekkert að vera rosalega sjóaður í pólitík til að vita að samningar næðust um komugjöld á spítala og desemberuppbót fyrir atvinnulausa. Mér finnst við ekki ná því sem mér finnst gríðarlega mikilvægt en við náðum mörgu góðu fram og ríkisstjórnin reyndi að koma til móts við háværar kröfur úr samfélaginu um leiðréttingar, en bæði þróunarsamvinnan og Kvikmyndasjóður koma gríðarlega illa út úr þessum fjárlögum og það finnst mér hryggilegt.

Ég kalla eftir framtíðarsýn. Við getum unnið hana saman hér á þinginu. Við erum að búa til nefnd sem gerir okkur það kleift. Ég skora á samvinnumenn mína hér á þinginu að finna þá fleti sem munu fleyta okkur inn í bjartari tíma — og bjarta framtíð líka, svolítið óþægilegt að vera svona lítill flokkur sem allir vilja vera í.

Nei, ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við finnum sameiginlega sýn þar sem við getum lagt orku í að gera hlutina saman. Það er margt spennandi sem hægt er að gera. Það er margt sem kallað er eftir. Það hefur mikið verið kallað eftir því að við gerum til dæmis landið okkar þannig í stakk búið að fyrirtæki sem hafa áhuga á að borga mikið fyrir orkuna okkar vilji staðsetja sig hér. Þá er ég að tala um netvæna Ísland þar sem bæði lagasetning og skattaumhverfi sé spennandi þannig að við fáum kannski að hýsa Google, bjarga því úr því veseni sem það er í út af ómögulegum lögum eins og í Bandaríkjunum þar sem þeim er gert að veita bandarískum yfirvöldum aðgang að öllu sínu fólki og meira að segja að öllu því fólki sem er ekki einu sinni í Bandaríkjunum.

Við getum vel orðið samkeppnishæf á því sviði og svo fjöldamörgum öðrum. Við erum að glata einu gríðarlega stóru tækifæri og það lýtur að kvikmyndagerð á Íslandi, lýtur að innlendum kvikmyndum og þeim sem hafa áhuga á að koma hér og starfa með því fólki. Ég er ansi hrædd um að mikið af því fólki fari úr landi ef þetta verður að veruleika.