143. löggjafarþing — 43. fundur,  19. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[19:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Hún er málefnaleg og góð. Það eru tvö atriði sem mér finnst standa upp úr sem er ósvarað. Það er í fyrsta lagi skrásetningargjöldin í háskólana. Það kom fram að skrásetningargjaldið í Háskóla Íslands hefði þurft að vera 69.600 kr. árið 2012 miðað við þá hækkun sem orðið hefur á verðlagi frá þeim tíma til meðalverðlags ársins 2013, sem eru 3,856%. Miðað við 3% verðlagsforsendur frumvarpsins hefði skrásetningargjaldið þurft að vera 74.450 kr., það munar ekki nema 450 kr. frá því sem lagt er til í frumvarpinu, þannig að ég efast um að þetta muni vera flokkað sem skattur en ekki þjónustugjald. Ég vildi koma þessu að út af því.

Síðan kom hv. þm. Birgitta Jónsdóttir inn á það að fyrirtæki mundu ekki geta borgað þessi 2% í séreignarsjóð, en þau gera það flest samkvæmt kjarasamningi. Það er eingöngu þegar um er að ræða að fyrirtækin borgi það samkvæmt kjarasamningi sem það á við. Velflest stéttarfélög í landinu eru búin að gera samninga við sína atvinnurekendur um að þeir borgi 2% í séreignarsjóð starfsmanna, þeirra starfsmanna sem þess óska. Síðan er skattfrelsi á hvoru tveggja.