143. löggjafarþing — 43. fundur,  19. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[19:38]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Ég er ekki á áliti meiri hlutans og við í minni hluta nefndarinnar höfum ekki skilað sjálfstæðu nefndaráliti vegna breytingartillagna við 3. umr. Við munum hins vegar gera athugasemd og óska eftir bókun í nefndinni um hinn sérstaka skatt á fjármálafyrirtæki sem lagður er á nú við 3. umr. málsins. Okkur hefur gefist lítið færi á því að rýna þennan skatt til gagns. Upplýsingarnar komu ótrúlega seint inn í þingið um fyrirkomulag álagningar skattsins. Við vorum að afgreiða það hér í dag við 2. umr. Nú er komið inn með álagningarhlutfallið. Það er hvorki meira né minna en rúmir 20 milljarðar kr. (Gripið fram í.) sem ætlað er að afla til viðbótar við þá miklu hækkun á skatti á fjármálafyrirtæki sem gert var ráð fyrir í upphaflegu frumvarpi til fjárlaga. Við höfum því ekki haft neitt tækifæri til þess að rýna þetta atriði ofan í kjölinn og gerum auðvitað athugasemd við þá framgöngu.

Það er gríðarleg fjárhæð sem á að afla með þessum skatti frá fjármálafyrirtækjum og útfærslan á því hvernig menn síðan verja þessum miklu nýju tekjum er algjörlega eftir. Þá mun auðvitað skipta miklu máli að menn gæti jafnræðis og sanngirni. Við lögðum þar af leiðandi á það áherslu í samningum milli formanna flokkanna um þinglok að það væri algjörlega hafið yfir vafa að vísað yrði í meðförum þingsins, í fjárlögum og við útfærslu fjárlagaheimildar til skuldaniðurfærslunnar að frumvarp kæmi á vorþingi sem útfærði framkvæmd skuldaniðurfellingarinnar.

Í þeim kynningum sem við höfum fengið í þingflokki Samfylkingarinnar frá sérfræðingum sem unnu tillögur fyrir ríkisstjórnina hefur komið í ljós að mjög margt er óljóst í útfærslunum. Við höfum ekki fengið skýr svör um einstaka þætti þeirra. Það eru líka hópar sem virðast falla milli skips og bryggju og er ekki gert ráð fyrir að fái úrlausn í tillögum sérfræðinganefndarinnar, en búa samt við forsendubrest samkvæmt hinum almennu forsendum sem ríkisstjórnarflokkarnir ganga út frá við ákvörðun um að lækka skuldir.

Það er líka athugunarefni að ég lagði fram skriflega fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra 2. desember síðastliðinn um það hvernig hin boðaða skuldalækkun mundi nýtast ólíkum þjóðfélagshópum, tekjuhlutfall þeirra sem fengju úrlausn, skulda- og eignastöðu og tekjustöðu þeirra, hversu margir af þeim sem nú eru í vanda mundu komast úr vanda við skuldaúrlausnina, hversu margir af þeim sem nú eru t.d. með húsnæðiskostnað undir 20% af ráðstöfunartekjum, sem almennt þykir mjög hóflegt viðmið, mundu fá peninga úr ríkissjóði til að létta enn frekar skuldabyrði sína o.s.frv.

Það er auðvitað forsenda vitrænnar umræðu um þessar skuldaáætlanir ríkisstjórnarinnar, þessa miklu loftkastala, að fá einhver efnisleg svör við svona greiningu. Nú er það sem sagt orðið þannig að forsætisráðherra er þegar fallinn á tíma varðandi svör á fyrirspurn minni. Það er mjög mikilvægt að inna stjórnarmeirihlutann eftir því að fá alvörugreiningar af þessum toga. Það má kannski segja að stjórnarmeirihlutanum sé borgið með jólafríinu á morgun og fái aukið svigrúm yfir jólin til að svara þessum spurningum, en auðvitað verður svarið við þeim að bíða uns þing kemur saman eftir áramót.

Í breytingartillögum nefndarinnar vildi ég að öðru leyti staðnæmast við nokkra hluti. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að bráðabirgðaákvæði tekjuskattslaga, sem kemur í veg fyrir að venjulegt fólk borgi skatt af skuldalækkunum sem fram fara á almennum og efnislegum forsendum, verði framlengt. Þessi ákvæði voru sett í lög á árinu 2009 og voru forsenda þess að hægt var að ráðast í skuldaúrvinnslu. Það er mjög mikilvægt að þau haldi gildi sínu áfram. Þetta minnir okkur hins vegar á hvernig ástandið var hér. Það var sem sagt bannað með lögum að afskrifa skuldir á venjulegt fólk fram til ársins 2009. Ef menn fengu einhverja skuldalækkun var lagaskylda hjá ríkinu að skattleggja forréttindin. Þetta er bara til upprifjunar um það við hvers konar tröll var að glíma til að fá almennan skilning á mikilvægi þess að lækka skuldastöðu heimila og fyrirtækja. Þess vegna styð ég það auðvitað heils hugar að þessi ákvæði verði framlengd.

Í breytingartillögunum koma líka inn þær breytingar sem ríkisstjórnin hefur boðað samhliða skuldaúrvinnslunni að hækka úr 2% í 4% heimildina til að draga frá skattskyldum tekjum séreignarsparnað sem geti farið til greiðslu á húsnæðisskuldum viðkomandi. Frekari útfærsla mun líka þurfa að koma í nýju frumvarpi á nýju ári og við bíðum þess auðvitað.

Hér er líka að finna ákvæði um útreikning vaxtabóta í samræmi við breytingarnar sem ríkisstjórnin er búin að boða í fjárlagafrumvarpinu. Þau komu inn milli umræðna, þ.e. fyrir 2. umr. fjárlaga, og eru hluti af hinu krampakennda krafsi ríkisstjórnarinnar til að reyna að skrapa saman nægum peningum til að fjárlögin stemmi við 2. umr.

Skerðingarhlutfall vaxtabóta er hækkað upp í 8,5% af tekjuskattsstofni. Við höfum fengið að heyra það hér aftur og aftur frá stjórnarmeirihlutanum að þetta sé ekkert til að hafa áhyggjur af því að þetta leggist bara á ríkasta fólkið, tekjuhæsta fólkið. Svo skoðum við hvað er á bak við þær yfirlýsingar og hvað blasir þá við? Jú, virðulegi forseti, það er sem sagt ekkert orðið eftir af hinni miklu varðstöðu ríkisstjórnarflokkanna um millistéttina. Ríkisstjórnarflokkarnir fengu samþykkta í dag lækkun skatta á meðaltekjuhópa sem dreifist nú býsna ójafnt, vegur nokkrar krónur hjá fólki með 250 þús. kr. í laun en fer upp í 4.200 kr. hjá fólki með 770 þús. kr. Í þessu tilviki munu vaxtabætur byrja að skerðast hjá hjónum með sameiginlega tekjur upp á 600 þús. kr. Þannig að ung kennarahjón sem eru hvort með 310 eða 320 þús. kall munu fá skertar vaxtabætur vegna hinna meintu skerðingar á hátekjufólk af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Nú er sem sagt fólkið sem hét millistéttarfólk orðið hátekjufólk og á að fá skertar vaxtabætur. Það merkilega er að það stendur ekkert eftir af varðstöðunni um millistéttirnar. Þetta eru hrein svik. Svik, svik og aftur svik. Millistéttarhjón með fjölskyldutekjur upp á 800 þús. kr. á mánuði verða fyrir skattahækkun samkvæmt þessu því að tekjuskattslækkunin er miklu minni en skerðingin á vaxtabótum. Ríkisstjórnin er sem sagt að hækka skatta á meðaltekjuhjón með 800 þúsund í laun um 20 þús. kr. á ári. Það eru skilaboð ríkisstjórnarinnar. Það er varðstaðan um millistéttina. Muniði ekki eftir að hafa heyrt þetta hér á undanförnum dögum? Varðstaðan um millistéttina.

Það stendur ekki steinn yfir steini í hinum mikla gorgeir ríkisstjórnarinnar um varðstöðu meðaltekjuhópa. Það sem blasir við er tilviljunarkennt krafs þar sem engin heildarsýn er fyrir hendi og nýr forsendubrestur er búinn til. Þetta fólk, hátekjufólkið eins og ríkisstjórnin hefur kallað það með yfirlætistón, (Gripið fram í.) hjónin með 600 þús. kr., 700 þús. kr., 800 þús. kr. í mánaðarlaun, fólkið sem tók húsnæðislán 2010 þarf núna að horfast í augu við að forsendurnar sem það gaf sér um vaxtabætur standast ekki. Þær eru nú skertar fyrirvaralaust. Öfugt við það sem okkur hefur verið sagt á undanförnum dögum og vikum er þetta ekkert sérstakt hátekjufólk heldur bara fólk á meðaltekjum og kannski rétt rúmlega það sem skerðist í boði ríkisstjórnarinnar. Svo kemur einhver þykjustuskattalækkun. Það eina sem gerist með þessari skattalækkun er að hún dugar ekki til að vega upp á móti skerðingu vaxtabótanna, en hún gagnast allra best setta fólkinu, fólkinu með yfir 750 þúsund í mánaðarlaun. Það er þar sem skurðpunkturinn er.

Við erum hér með enn eitt dæmið um það hvernig þessi ríkisstjórn hyglir þeim sem allra mest hafa milli handanna og lætur venjulegt fólk borga brúsann.