143. löggjafarþing — 43. fundur,  19. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[19:51]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ríkið gefur og ríkið tekur. Hún vekur auðvitað eftirtekt, svo að ég taki upp þráðinn frá fyrri ræðumanni, skerðingin á vaxtabótum til meðaltekjuhóps á sama degi og samþykktar eru í þessum þingsal skattalækkanir sem eiga að gagnast þeim sama hópi. Mér sýnist þetta oft vera svona, það er blásið til einhvers með pompi og pragt og síðan er það fjármagnað með því, a.m.k. að hluta og stundum að öllu leyti, að taka þann pening af sama fólkinu.

Ég ætla í stuttri ræðu aðallega að fjalla um stærstu tíðindin í breytingartillögum meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar en þar er loksins komið inn prósentuhlutfall á skatti á fjármálafyrirtæki. Hlutfallið er 0,376 en var X fram eftir degi, en við höfum svo sem heyrt af því að þetta yrði endanleg niðurstaða prósentuhlutfallsins.

Fyrst gagnrýni ég, eins og ég hef gert áður, að endanleg niðurstaða í svo stóru máli þar sem stórar fjárhæðir eru undir, að þessi stærð, prósentuhlutfall skattsins, skuli ekki hafa komið inn í tekjuöflunarfrumvörpin og forsendur fjárlaga og fjárlögin sjálf fyrr í þessu ferli. Hér eiga að koma inn 20 milljarðar. Yfirferð nefndarinnar hefði alveg mátt vera ítarlegri, en það var þó farið í þessi mál og viðeigandi aðilar fengnir til þess aðallega að svara spurningum sem vöknuðu mjög fljótt um lögmæti skattsins og eftir yfirferð nefndarinnar hefur efasemdum mínum fækkað. (Gripið fram í: Frábært.) Ég held að hægt sé að leggja skattinn á en það eru engu að síður lögfræðileg álitaefni og viðbúið að á þau verði reynt fyrir dómstólum. Það er af þeim sökum sem þessar tekjur eru vissulega ótryggar.

Þær eru líka ótryggar af öðrum sökum. Það segir í greinargerð með frumvarpinu frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að gert sé ráð fyrir að tekjustofninn eða skattstofninn minnki allverulega 2015 þegar gert er ráð fyrir að lokið verði að gera upp bú gömlu bankanna, að þá hætti þau að skila þessum tekjum. Það sem mér finnst ámælisvert er að ekkert í umræðunni hefur gefið ástæðu til þess að ætla að þær forsendur hafi eitthvað breyst. Menn hafa sagt að skiptum búanna verði jafnvel lokið fyrr. Þessi skattstofn er því ótryggur af tvíþættum ástæðum; þær geta verið lögfræðilegar og vegna þess að búum slitanna gæti lokið. Við gætum komist í hann krappann ef við ætlum að fara að fjármagna 80 milljarða kr. aðgerðir til að leiðrétta skuldir heimilanna með þeim skattstofni. Við verðum að íhuga alvarlega hvað gerist þá.

Við ætlum ekki að mótmæla því að skatturinn sé innheimtur en teljum miklu skynsamlegra, sérstaklega vegna þess að tekjurnar eru ótryggar, að tekjunum sé varið til þess að greiða niður skuldir ríkisins og/eða til skynsamlegra fjárfestinga. (Gripið fram í.)Ég veit að við í þessari umræðu erum ekki að tala um hvernig við ætlum að verja skattinum, við tölum um það meira á morgun. Ég sagði líka að ræða mín yrði stutt að þessu sinni, vegna þess að við getum út af fyrir sig fallist á að innheimta skattinn.

Að því sögðu vil ég leggja áherslu á að við teljum skynsamlegt að verja þessari upphæð frekar til niðurgreiðslu skulda hins opinbera, til fjárfestinga og til nauðsynlegra viðhalds- og uppbyggingarverkefna sem liggja fyrir eftir langvarandi niðurskurðartíma.