143. löggjafarþing — 43. fundur,  19. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[19:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um þetta mál hér þegar það kemur til 3. og síðustu umræðu og hefði alveg verið tilefni til að eiga þess kost að ræða það rækilega, vegna þess að í raun og veru er kannski stærsta einstaka breytingin á ferðinni hér við 3. umr., sem gefur minna svigrúm til umræðna og skoðunar á málinu við venjulegar aðstæður en 2. umr., hvað þá nú þegar við erum aðþrengd í tíma miðað við samkomulag um að reyna að ljúka hér þinghaldi fyrir helgi. Það er verulegur galli á þessu máli að sú stóra ákvörðun um stórhækkun bankaskattsins er fyrst að koma fyrir okkar sjónir núna þegar liðið hefur á þennan dag og við loksins að fá endanlega tölu frá meiri hlutanum eða ráðuneyti um hvert álagningarhlutfallið á hinum sérstaka skatti á fjármálafyrirtæki, bankaskatti svonefndum, eigi að vera.

Ekki er ástæða til að fjölyrða um önnur atriði þessa frumvarps að heitið getur, nema ég vil fyrst gera lítillega að umtalsefni vaxtabæturnar. Hér áðan var til umræðu hvernig viðbótarniðurskurður á þeim leiðir óhjákvæmilega til þess að verið er að breyta útfærslu vaxtabóta og draga úr kostnaði við rekstur þess kerfis á næsta ári sem nemur 500 millj. kr. Það var skyndiákvörðun meiri hlutans í þrengingum hér á dögunum þegar hætt var við að skerða barnabætur sem búið var að ákveða í ríkisstjórn og óskað eftir að fjárlaganefnd tæki inn í tillögur sínar. Þá gerðist það að stærstur hluti þeirrar skerðingar, 300 milljónir, var færður yfir í skerðingu á vaxtabótum, sem þar með fór úr 300 í 500 millj. kr. Það leiðir til þess, herra forseti, að það verða ekki til ráðstöfunar til greiðslu vaxtabóta, til að niðurgreiða vaxtakostnað heimila, tekjulágra heimila með þunga greiðslubyrði af íbúðalánum, nema 8.425 millj. kr. á verðlagi ársins 2014. Þetta er svipuð krónutala og var inni í vaxtabótakerfinu líklega 2008. Þannig að þetta verður langminnsti stuðningur á löngu árabili við skuldug tekjulág heimili með þungar greiðslubyrðar vegna húsnæðisöflunar.

Einhvern veginn hefur þessi þáttur málsins alveg farið fram hjá mönnum, finnst mér, í umræðum. Vissulega hefur skuldastabbinn lækkað umtalsvert og stofninn sem skapar rétt til vaxtabóta er þar af leiðandi minni þannig að auðvitað nýtast þar með minni fjármunir til sambærilegs stuðnings. En hér er gengið miklu lengra en sem því nemur. Það er verið að draga verulega úr stuðningi við tekjulágar fjölskyldur sem eiga rétt á vaxtabótum. Og skurðpunkturinn færist neðar í tekjubilinu eins og hér var fjallað um.

Ég get út af fyrir sig verið sammála því að það er kannski ekki skárri kostur í stöðunni en að láta þá tekjuhærri endann, sem á annað borð hefur fengið vaxtabætur, taka þær byrðar á sig, en við erum komin dálítið neðarlega gagnvart þeim hópi miðað við það sem áður hefur verið.

Varðandi séreignarlífeyrissparnað og það sem hér er lagt til, að flýta þeirri breytingu um hálft ár sem gripið var til sem ráðstöfun í ríkisfjármálum, að í þrjú ár skyldi skattfrelsi til inngreiðslna í séreignarsparnað aðeins nema 2% af launum sparandans. Það var sett inn tímabundið og tengt þá gildandi ríkisfjármálaáætlun. Það er kannski ekki stór munur á því hvort það endar 1. júlí eða 31. desember. Þetta er þó ávísun á tekjutap hjá ríki og sveitarfélögum, tengist áformum um skuldaniðurfærsluaðgerðir. Að öðru leyti bíður betri tíma að útfæra þær breytingar í lögum, þar á meðal að kveða á um fyrirkomulag hinna skattfrjálsu inngreiðslna og hvernig þær skuli renna til lækkunar höfuðstólsins sem ég fæ ekki betur séð en að verði að búa um í lögum. Trúlega þarf að breyta þrennum lögum á vormissirinu, þ.e. lögum um tekjuskatt, lögum um staðgreiðslu og lögum um lífeyrissjóði.

Varðandi skattana síðan á fjármálafyrirtækin er óhjákvæmilegt að fara um það nokkrum orðum. Í frumvarpinu eins og það kom fram í haust var lagt til að sá skattur hækkaði úr 0,041 prósentustigi af skattstofninum í 0,145. Það er umtalsverð hækkun. Í gær líklega samþykktum við að þetta hlutfall færi úr 0,145 í 0,151. Það verður einhver skammlífasta breyting sem ég hef séð af þessu tagi því nú fer hún fyrir borð og tillagan er að hlutfallið endanlega verði 0,376. Þetta er lágt hlutfall en þetta er af gríðarlega stórum skattstofni, stóru skattandlagi upp á líklega um 7.800 milljarða — þá hefur það lækkað síðan um síðustu áramót, hefur það lækkað miðað við greinargerðir fjárlagafrumvarpsins og frumvarpsins þar sem talað er um 7.600 milljarða samkvæmt mati Seðlabankans um næstliðin áramót.

Hvað er þetta mikil hækkun? 0,041 í 0,376. Er þetta ekki liðlega níföldun á skattinum? Mér sýnist það. Það er vel að verki staðið. Það er alveg hægt að hrósa mönnum fyrir dugnað í sjálfu sér í þessum efnum. Þetta er einhver svakalegasta hækkun á einum skattstofni sem ég veit nokkur dæmi um í samanlagðri sögu skattbreytinga á Íslandi. Enda fer þessi tekjustofn þar með úr einum komma eitthvað milljarði króna, eða hvað það nú hefur gefið með þessari lágu álagningu, í líklega 38,5–39 milljarða kr. að meðtöldum þeim tekjum sem skatturinn skilaði fyrr. Hækkunin er upp á 37,3 milljarða. Ef það stæði í fjögur ár væru það 150 milljarðar, rétt tæpir. Á þessar tekjur er íslenska ríkið nú að veðja. Okkur hlýtur öllum að vera ljóst hér í þessum sal að þá er ekki lítið lagt undir. Það er eins gott að ekkert klikki ef menn ætla að reiða sig svona algerlega á þennan nýja stóra skattstofn.

Auðvitað gleðjast sjálfsagt ýmsir yfir því að stærstur hluti hans lendir með breytingunni á búum hinna föllnu fjármálafyrirtækja, þau eru vissulega stór, en þetta lendir líka af miklum þunga á stóru íslensku bönkunum. Þetta er gríðarleg hækkun á þeim gjöldum sem þeir eiga að greiða til ríkisins. Stærstur hlutinn á að fara til að fjármagna 80 milljarða, kynnta og boðaða með miklum bravúr, lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána.

Við höfum litlar upplýsingar fengið í sjálfu sér um þá aðgerð, enda má segja að það sé ekki okkar aðalhlutverk í efnahags- og viðskiptanefnd að fara ofan í saumana á því á þessu stigi málsins, en engu að síður er þetta nú tengt. Hér er tekjustofninn að verða til. Við fengum minnisblað um þetta þar sem vissir hlutir skýrast vissulega sem maður hefur verið að geta sér til um eða verið að ráða í eftir að skýrsla starfshópsins kom út. Ég las í hana að 80 milljarða talan væri brúttótala. Þá ætti eftir að draga frá þeirri fjárhæð vexti og verðbætur af svokölluðum leiðréttingarhluta lánanna á fjögurra ára tímabili.

Nú sýnist mér það staðfest miðað við það minnisblað sem við fengum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu að ekki séu það bara vextir og verðbætur af leiðréttingarlánunum, heldur eigi líka að draga frá þessu vanskil sem verða gerð upp á lánunum um leið og hluti þeirra er færður yfir í leiðréttingarhlutann og síðan að sjálfsögðu koma til frádráttar öll fyrri úrræði til lækkunar höfuðstóls. Þar munu væntanlega koma við sögu til dæmis greiðsluaðlögunarlán og biðreikningur vegna þeirra. Þá held ég að frádráttarliðirnir séu orðnir meiri en ég hafði reiknað með og reiknað út, en ég leyfði mér að halda því fram í sjónvarpsþætti fyrir nokkru að sennilega yrði eiginleg lækkun höfuðstóls varla nema um 72 milljarðar miðað við þessa nálgun, en trúlega verður það enn minna miðað við það sem mér sýnst núna vera að birtast. Þannig að þá eru ansi margir frádráttarliðir að þessu leyti miðað við landskynninguna í Hörpu. Það bíður auðvitað frumvarpa hér á vormissirinu að skýra þessa hluti endanlega og ekki mikið meira um það að segja á þessu stigi málsins.

Um skattstofninn hef ég áður rætt hér við 2. umr. Ég get vísað í það sem segir í nokkuð ítarlegu nefndaráliti mínu sem 2. minni hluta við þetta mál til 2. umr. Ég tel að þær breytingar sem efnahags- og viðskiptanefnd gerði á sjálfum grunni skattsins við 2. umr. hafi verið til bóta og til styrktar málinu. En engu að síður eru áfram í því álitamál, þar á meðal er ekki hægt að horfa fram hjá því að það skiptir máli hvernig skatturinn er útskýrður lagalega og hvaða lögskýringar fylgja honum, bæði varðandi eðli hans, gerð og tilgang. Þess vegna vill maður í raun hafa sem fæst orð hér og síðastur manna ætla ég að segja eitthvað ógætilegt sem gæti orðið einhverjum efniviður í einhvern rökstuðning, einhvern málflutning. Ég mun því neita mér um að reifa ýmis sjónarmið sem ég teldi tilefni til að gera og deila þeim með sjálfum mér og sjálfum mér einum. Þau tengjast meðal annars þeirri hækkun sem nú er lögð til á skattinum og umfram þá 20 milljarða fjárhæð sem á í orði kveðnu að ganga beint til lækkunar höfuðstólsins. Hér er hækkun á ferðinni frá fjárlagafrumvarpinu sem er þá orðin upp á 23 milljarða kr., það býr til þessa 37,3 milljarða tölu þegar við bætast 14,3 milljarðar úr upphaflegu frumvarpi og forsendum fjárlagafrumvarps og heildartekjur af skattinum eru þá orðnar nær 40 milljörðum en hitt. Að vísu ber að taka fram að til frádráttar frá þeim tekjum sem skatturinn gaf á þessu ári og fyrri tímum koma að sjálfsögðu ný frítekjumörk sem létta skattbyrðinni af minni fjármálafyrirtækjum og bönkum og öðrum slíkum upp að vissu marki þannig að það þyrfti að reikna það út nokkuð nákvæmlega hvað eftir stæði af upphaflega tekjustofninum til þess að fá endanlega tölu í þeim efnum.

Mér sýnist líka að með þessu sé tekjugrundvöllur fjárlagaársins 2014 frekar styrktur en hitt þannig að þessi myndarlega hækkun eigi að gera eitthvað betur en kostnaður tengdur skuldaniðurfærsluaðgerðunum er áætlaður á næsta ári og er það svo sem vel, enda orðið lítið borð fyrir báru í fjárlagafrumvarpinu, en ég hef ekki enn séð afstemmingu á því og veit ekki hvort fjárlaganefnd hafði gögn í höndunum til þess að taka mið af mögulegum lítils háttar tekjuauka út úr þessum breytingum sem auðvitað á að vera þannig að hægt sé að afstemma endanlega tekju- og gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2014.

Virðulegur forseti. Ég sé svo sem ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð enda tíminn hvort sem er búinn og aðstæðurnar þannig, bæði vegna eðlis þessa máls og tímaskorts, að það er hyggilegt að reyna ekki að segja meira.