143. löggjafarþing — 43. fundur,  19. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[20:14]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni, formanni efnahags- og viðskiptanefndar, fyrir svörin eða fyrir að bregðast við og koma með athugasemdir sínar og það er vel.

Ég verð þó að segja alveg eins og er að auðvitað er ekki hægt að horfa fram hjá því þegar menn eru með svona stórar tölur og svona mikla hagsmuni í huga að það eru gríðarlegar mótsagnir í þeim gögnum og þeim forsendum sem hafa verið lögð fyrir okkur á þessu hausti um bankaskattinn. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram það mat fjármála- og efnahagsráðuneytisins að slitum gömlu búanna eða skiptum verði að fullu lokið í árslok 2015 og skattstofninn þar með horfinn. Þess vegna áætlaði ráðuneytið ekki tekjur af þessari hækkun og breytingu bankaskattsins eða breikkun nema í tvö ár upp á 11,3 milljarða frá búunum í tvö ár og síðan núll.

Nú erum við allt í einu með í höndunum áform um stórfellda skattlagningu frá þessum aðilum, tekjur af þessu næstu fjögur árin. Gott og vel. Þá er sagt: Já, en ef þessi skattstofn hverfur munum við fá mikla fjármuni eftir öðrum leiðum út úr búunum þegar þessir aðilar neyðast til að afskrifa hér miklar krónueignir sínar. Það hefur svo sem lengi verið hugmyndin, en það er ekkert í hendi um það hvenær og hvernig það gerist.

Ég tók eftir því að hv. þingmaður sagði að þá muni ríkið fá mikla fjármuni í sínar hendur. Það er enn síður nokkuð í hendi með að það verði endilega ríkið sem hirði þann ávinning nema það gerist beinn aðili að málinu. Það skilar ekki hagnaði til ríkisins per se þó þeir aðilar yrðu til dæmis að færa niður eign sína í íslensku bönkunum og láta hana fyrir afslátt, þá eru það þeir sem tapa en ekki við sem græðum. Það eru svo margir lausir endar í þessu af því tagi (Forseti hringir.) þannig að án þess að ég vilji espa hér upp umræður eða lengja þær (Forseti hringir.) verð ég að setja þessa fyrirvara í loftið.