143. löggjafarþing — 43. fundur,  19. des. 2013.

tekjuskattur.

204. mál
[21:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég skal nú ekki þreyta menn með löngum ræðuhöldum í þessu síðasta máli dagskrárinnar í kvöld, en það eru nokkur atriði sem ég vil engu að síður koma á framfæri. Ég stend ekki að nefndaráliti meiri hlutans og skila reyndar ekki sjálfstæðu nefndaráliti, bæði sökum tímaleysis og í sjálfu sér þess að athugasemdir mínar eru ekki svo stórvægilegar að ekki nægi að koma þeim á framfæri munnlega.

Í fyrsta lagi varðandi meðferð afleiðusamninganna í skattalegu tilliti og breytingartillögur meiri hlutans þar á eru þær ugglaust vel meintar og vel hugsaðar, en ég hef haft takmarkaðan tíma til að sannreyna að þar séu réttar breytingar á ferðinni frá því sem í frumvarpinu var þó að mér skiljist að þessar breytingar hafi verið bornar undir sérfræðinga ráðuneytisins í skattamálum og þeir geri ekki athugasemdir við þær. Engu að síður eru þetta nokkuð flókin mál. Ég treysti mér því ekki til að leggja mat á hvort það sé t.d. vænleg breyting að fella vaxtaskiptasamningana undir almenn afleiðuviðskipti með þessum hætti, á því eru ábyggilega bæði kostir og gallar, þó að ég skilji svo sem hvað menn telji sig vera að gera með því.

Ég vil taka það fram að sá sem hér talar er enginn sérstakur aðdáandi þessara afurða á fjármálamarkaði. Ég held að sagan sýni okkur að mörg vandræðin má rekja til þess að menn hafa misst viðskipti af þessu tagi úr böndunum. Ég held að um það sé tæpast deilt lengur. Sumir hafa haft um það stór orð að þarna hafi kvillinn komið inn á markaðinn sem hafi síðan gert hann illviðráðanlegan. Vissulega geta verið rök fyrir því þegar um er að ræða að menn tryggi sig í eðlilegum og eiginlegum viðskiptum fyrir verðbreytingum á vörum eða verðmætum sem eru eiginleg og liggja að baki slíku, en það er stutt í spákaupmennskuna og braskið þegar menn fara að taka stöður í gerningum af þessu tagi og þeir margfaldast að umfangi í spákaupmennskunni. Allir þekkja til hvers slíkt getur leitt.

Evrópusambandið hefur verið að bögglast við að koma saman tilskipun sem á að setja þessu vissar skorður, kannski ekki eins miklar og menn höfðu í hyggju í upphafi, illa brenndir af vandræðunum á fjármálamarkaði. Eitthvað er þó í farvatninu þar og það mun væntanlega berast til okkar í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og reyndar er komið hér inn á og framsögumaður nefndi.

Ég verð einfaldlega að segja að ég mun þar af leiðandi ekki treysta mér til að taka afstöðu til þessa þáttar málsins, hvorki breytingartillagnanna né fyrsta hluta frumvarpsins sem lýtur að breytingum á skattlagningu afleiðuviðskipta.

Varðandi millilandasamrunann skil ég þörfina fyrir að taka á því máli. Þar erum við með athugasemdir á herðunum frá Eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins. Ég held að verið sé að fara þar málefnalega leið. Ég bar fram spurningar um þetta við 1. umr. sem ég hef að nokkru leyti fengið svör við í starfi nefndarinnar og læt mér þau nægja.

Þá kemur að viðskiptum milli tengdra aðila þar sem svokölluð milliverðlagningarákvæði eða verðlagning í viðskiptum tengdra lögaðila koma við sögu. Ég fagna tilkomu þeirra, að umgjörðin um þau sé styrkt. Það er tvímælalaust eitt af því sem við þurfum að gera. Þar af leiðandi tel ég að þær breytingar séu til bóta svo langt sem þær ná. Þetta tekur til aðila í stærri viðskiptum með heildareignir yfir 1 milljarð kr.

Varðandi regluna um reiknað endurgjald, sem kemur inn í 58. gr. laga um tekjuskatt, gerði ég strax athugasemdir við það við 1. umr. að hún yrði einfaldlega felld á brott eins og frumvarpið gekk út á án þess að gripið yrði til einhverra gagnráðstafana á móti. Það var í ljósi reynslunnar og þess hvað verið var að reyna að gera, m.a. með 20/50-reglunni á sínum tíma, þ.e. að stemma stigu við allt of rúmum reglum varðandi möguleika manna til að moka til sín arði út úr einkahlutafélögum og dulbúa í raun eiginlegar launagreiðslur sem arðgreiðslur. Þetta vandamál held ég að margir kannist við sem hafa eitthvað fylgst með skattaumræðu og skattaframkvæmd á umliðnum árum. Við misstum þessa hluti algerlega úr böndunum og það hafði veruleg áhrif t.d. til tekjufalls hjá sveitarfélögum sem misstu í stórum stíl útsvarstekjur þegar venjulegir launamenn, einyrkjar og aðrir slíkir, stofnuðu einkahlutafélög utan um sig og tilhneigingin var alltaf sú að færa alls konar kostnað á þessi félög þannig að menn steinhættu að eiga sína eigin bíla og annað því um líkt, allt í einu rak einkahlutafélagið þá, en mörkin milli einkaneyslu og eiginlegs rekstrarkostnaðar í alvörufélagi eru oft mjög óljós þegar svona lagað á við.

Svo rammt hvað af þessu um tíma að það reri bátur frá ónefndum stað á Snæfellsnesi einu sinni og um borð voru fjórar kennitölur. Það voru ekki launamenn eða sjómenn, heldur fjórar kennitölur einkahlutafélaga sem sóttu sjóinn. Auðvitað er þetta komið út í hreina vitleysu. Annað ónefnt byggðarlag í fjarlægum landshluta sem var í ágætisstöðu með 10, 12 nokkuð vel reknar smábátaútgerðir sem menn höfðu rekið með hefðbundnum hætti í eigin nafni og haft ágætistekjur af og borgað myndarlegt útsvar — þær breyttust allar með tölu á tveim, þremur árum yfir í einkahlutafélög og um helmingur útsvarstekna sveitarfélagsins hvarf í framhaldinu. Þetta var svona. Auðvitað varð að taka á þessu.

Það má vel vera að 20/50-reglan hafi ekki verið gallalaus, hún var það auðvitað ekki, en hún spratt úr þessum jarðvegi. Það bið ég menn að hafa í huga. Svo var rekinn mikill áróður gegn henni enda þótti ýmsum vænt um þetta kerfi og höfðu búið vel um sig í því. Maður varð var við alveg heiftarlega hagsmunagæslu þegar að því kom að hrófla eitthvað við þessu. Hún er að einhverju leyti enn til staðar.

Það er helst til ráða, ef menn vilja út með þessa reglu, að treysta umgjörðina utan um reglur um reiknað endurgjald þannig að þeim sem eru í þeirri stöðu gagnvart sínum rekstri að þeir eru eigendur alfarið eða að stærstum hluta í félagi sé gert að reikna sér einhver eðlileg laun á grundvelli reglnanna um reiknað endurgjald.

Ég fagna þar af leiðandi að niðurstaðan er orðin sú í nefndinni að meiri hlutinn flytur um það breytingartillögur að styrkja í staðinn ákvæði 12. gr. frumvarpsins, 48. gr. tekjuskattslaganna, um reiknað endurgjald þegar í hlut eiga aðilar sem eru þannig tengdir lögaðilanum, þ.e. fyrirtækinu, að þeir hafi þar ráðandi eignarhald. Það sem þarf m.a. til og er örugglega til bóta er að skilgreina hvenær menn teljist vera í þeirri stöðu. Það er það sem breytingartillaga meiri hlutans gengur út á með sæmilega skýrum hætti að ég tel og vona að það gagnist í framhaldinu við skattaframkvæmdina og auðveldi þeim sem eiga síðan að vinna á grundvelli þessara ákvæða framkvæmdina. Engu að síður tel ég ástæðu til þess að þetta mál verði áfram og betur til skoðunar.

Við drögnumst með heilmikinn vanda frá fyrri tíð í þessum efnum sem er allt í lagi að nefna hér aðeins. Hann er auðvitað sá að þessi félög voru stofnuð hundruðum og þúsundum saman. Þau eru mörg hver til enn þann dag í dag, sum þeirra sofandi en þeim er viðhaldið. Síðast þegar ég skoðaði um þetta gögn og upplýsingar brá mér dálítið í brún því það kom í ljós að það er milljarða og aftur milljarða tuga ef ekki hundraða uppsafnað tap sofandi í einkahlutafélögum sem hefur ekki verið slitið. Félögin eru þarna og geta þar af leiðandi vaknað upp ef menn svo kjósa að færa inn í félögin einhvern ábatasaman rekstur og þá er til mikið tap á móti. Það er ekki auðvelt að gera við þessum vanda. Auðvitað fjarlægist þetta í tíma vegna tiltekinna reglna og hættan minnkar á því að menn geti með þessu komið sér hjá eðlilegum skattgreiðslum í stórum stíl. Það var heldur ónotalegt að sjá framan í þetta þegar maður fór að skoða þetta t.d. á árunum 2009 og 2010. Ég hef ekki nákvæmlegar upplýsingar um hvernig þetta stendur í dag en svona var það þá.

Herra forseti. Ég ætla ekki að þreyta menn með lengri ræðuhöldum um þetta. Að öðru leyti tek ég undir að það er ástæða til þess og var niðurstaða nefndarinnar að áskilja sér rétt til að skoða betur vandamál með endurgreidd svokölluð óheimil lán sem kunna að tengjast þessu. Það er auðvitað svolítið sérstakt að fjalla um það sem viðfangsefni í skattalegu tilliti að menn hafi lánað sjálfum sér ólöglega en síðan gert það upp og þurfi einhverja sérstaka meðferð í skattalegu tilliti vegna þess. Auðvitað á svoleiðis lagað ekki að gerast en einhver dæmi eru auðvitað um að það gerist. Nýlega fallinn dómur Hæstaréttar gefur vissulega tilefni til þess að það verði skoðað hvort hugsanlega megi leysa vandann með því að heimila skattyfirvöldum að taka tillit til slíkra aðstæðna og fella þá niður skattkröfur eða eitthvað slíkt ef „málefnaleg rök standa til þess“, innan gæsalappa þó, því að ef lántakan í byrjun hefur verið ólögmæt var hún það auðvitað.

Varðandi þau sjónarmið sem komu svo fram um sérstaka fjársýsluskattinn — það mætti margt um hann segja, en niðurstaðan varð sú sem hún varð á sínum tíma vegna þess meðal annars að minni fjármálafyrirtæki töldu sig ráða mjög illa við að fá einsleitan fjársýsluskatt á sig að fullu, upp á kannski 10%. Rökin voru í sjálfu sér skýr og fyrirmyndirnar þekktar. Þetta er starfsemi sem ekki greiðir virðisaukaskatt og í öðrum löndum hafa menn farið þá leið að leggja á aðila, sem hverrar þjónusta er undanþegin virðisaukaskatti, skatt af þessu tagi sem komi að einhverju leyti til móts við eða gangi upp í hann. Þannig varð til blandan af almennum fjársýsluskatti og sérstökum fjársýsluskatti vegna þess að stóru og sterku fyrirtækin voru augljóslega í betri færum til að bera þennan skatt að hluta til á grundvelli hagnaðar síns en þau minni sem báru hann að fullu sem launatengdan skatt.

Því miður náðu hugmyndir mínar ekki fram að ganga, segi ég auðvitað, því ég taldi að það hefði átt að innleiða þennan skatt sem prógressífan skatt. Ef ég man rétt lagði ég þetta til á sínum tíma sem fjármálaráðherra en þingið komst að annarri niðurstöðu eða hvort sú hugmynd mín strandaði einhvers staðar á leiðinni að leggja þetta á sem tiltölulega hóflegan skatt á laun upp að vissum mörkum í fjármálakerfinu, kannski 4–5% fjársýsluskatt á laun undir hálfri milljón en hafa svo verulega hærri skatt á laun þar fyrir ofan. Hugsunin var sú og er vel þekkt að bremsa niður einhverja ofurlaunaþróun í þessum geira, svipað og menn hafa gert annars staðar varðandi bónusgreiðslur, þ.e. að vinna gegn þeim með mjög harkalegum skatti. Því miður hefur svo látið á sér kræla í íslenska fjármálakerfinu á nýjan leik — gamall vani vill taka sig upp — ákveðin þróun í þessa átt. Launamunur og hæstu laun hafa keyrt dálítið fram úr almennri launaþróun í landinu og eru þó ekki nema fimm ár frá hruni. Svona er þetta nú. Ég tel enn koma vel til greina að endurskoða fyrirkomulag þessa skatts, en það er ekkert stórkostlegt vandamál að búa við hann í bili, þess vegna í óbreyttri mynd í eitt til tvö ár í viðbót. Ég er þar af leiðandi sammála niðurstöðu meiri hlutans að gera ekkert með þær athugasemdir sem fram komu um hann.