143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[10:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér kemur til útfærslu sérstök 500 millj. kr. viðbótarskerðing ríkisstjórnarinnar á fjárveitingum til greiðslu vaxtabóta. Það leiðir til þess að aðeins rúmar 8.400 milljónir verða til greiðslu vaxtabóta á árinu 2014 sem er langlægsta fjárhæð að raungildi sem varið hefur verið til stuðnings tekjulitlum fjölskyldum með þunga greiðslubyrði af íbúðalánum um langt árabil.

Á það má benda að almennar vaxtabætur voru á bilinu 11–12 milljarðar kr. árin 2010 og 2011. Með sérstakri vaxtaniðurgreiðslu fór stuðningur við tekjulágar fjölskyldur vegna húsnæðiskostnaðar í á nítjánda milljarð króna á árinu 2011. Hér erum við komin langt til baka hvað varðar stuðning við tekjulágar fjölskyldur með þunga greiðslubyrði af íbúðalánum. Ég tel þetta mjög misráðið og að þarna þurfi meiri stuðning þó að síðan megi deila um útfærsluna sem er, eins og hér kemur fram, þannig að það skerðir fyrst og fremst greiðslurnar til tekjuhærri endans sem hefur þó notið vaxtabóta. Engu að síður er þetta mjög tilfinnanlegt, (Forseti hringir.) herra forseti, og ég legg til að þessi breyting verði felld.