143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[10:52]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er mikið ánægjuefni að þessi grein frumvarpsins er felld brott nú í atkvæðagreiðslu. Hér hugðist stjórnarmeirihlutinn minnka endurgreiðslur til nýsköpunarfyrirtækja vegna kostnaðar við rannsóknir og þróun. Það er hætt við það og það er gott. Ég vil líka vekja athygli á nefndaráliti meiri hlutans, loksins er formlega fallist á það grundvallarsjónarmið að séu framlög til nýsköpunarfyrirtækja skynsamleg skili þau sér til baka. Í nefndarálitinu segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Einnig var talið að áhrif gildandi ákvæða laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki á greiðslustöðu ríkissjóðs væru í raun jákvæð …“

Þetta er lykilatriði. Þessari meginreglu verðum við að beita þegar við fjöllum líka um Tækniþróunarsjóð, Rannsóknasjóð og Kvikmyndasjóð. Framlög til þessara mála skila jákvæðri niðurstöðu fyrir ríkissjóð. Ég fagna því að það sé fallist á þau rök í atkvæðagreiðslu.